Spurt og svarað um Tungumálaver
Spurt og svarað
Get ég skráð mig á námskeið hjá Tungumálaveri ef mig langar virkilega að læra norsku, sænsku eða pólsku?
Nei því miður getur þú það ekki. Verkefni Tungumálavers er að kenna þeim nemendum sem þegar eru með grunn í þessum tungumálum og sem þess vegna hafa rétt á að læra þessi tungumál í stað dönsku í grunnskóla.
Hvaða nemendur eiga kost á því að læra norsku, sænsku eða pólsku í stað dönsku í grunnskóla?
Nemendur um allt land með grunn í norsku og sænsku eða nemendur á höfuðborgarsvæðinu sem hafa pólsku að móðurmáli. Flestir nemendur sem læra sænsku eða norsku eru íslensk börn sem búið hafa í Svíþjóð eða Noregi.
Hvaða forkunnáttu er krafist af nemendum?
Nemendur þurfa bæði að skilja og geta gert sig skiljanleg á því tungumáli sem þau vilja læra í Tungumálaveri. Ef nemandi kann til dæmis aðeins nokkur orð í tungumálinu, á erfitt með að skilja talað mál eða ef það er mjög langt síðan nemandinn bjó í landinu sem málið er talað mælum við með að hann læri dönsku í sínum grunnskóla.
Mér finnst að barnið mitt ætti að læra norsku, sænsku eða pólsku í stað dönsku. Hvernig get ég skráð það hjá ykkur ?
Foreldrar geta ekki skráð barnið sitt sjálfir. Ef þú ert viss um að barnið þitt hafi nauðsynlega grunnþekkingu á tungumálinu þarftu fyrst að hafa samband við skóla barnsins og biðja um að það sé skráð í nám í Tungumálaveri. Í kjölfarið munum við hafa samband við þig með frekari upplýsingar.
Hvað kostar kennsla Tungumálavers?
Tungumálaver er á vegum Reykjavíkurborgar og er ókeypis fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar. Önnur sveitarfélög kaupa þjónustuna af Reykjavíkurborg samkvæmt gjaldskrá sem er uppfærð árlega. Sama verð er fyrir fjarnám og staðnám. Kennsluráðgjöf á ódýrari þar sem skólarnir sjá sjálfir bæði um kennslu og námsmat.
Geta foreldrar borgað fyrir kennslu í Tungumálaveri þó skólinn vilji ekki skrá nemandann?
Nei, þeir geta það ekki. Skólum er í sjálfsvald sett hvort þeir ráða inn kennara í þessum greinum eða kaupi þjónustuna af Tungumálaveri. Tungumálaver sér um að meta hvort nemendur séu með nauðsynlega grunnþekkingu til að fá kennslu í þessum greinum.