Samráðsferli hverfisskipulags
Samráðsferlinu við vinnu að nýju hverfisskipulagi er í grunninn skipt upp í sex skref sem fylgja skipulagsvinnunni, allt frá hugmyndaleit í upphafi vinnunnar að samþykktu skipulagi. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytt og viðamikið samráð sem miðar að því að íbúar á öllum aldri og aðrir hagsmunaaðilar fái tækifæri til að taka þátt í mótun borgarumhverfisins og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Kynntu þér samráðsferli hverfisskipulags
Smelltu á myndbandið til að horfa.
Vinnu- og samráðsferli skipt í þrjá fasa
Samráð er í algjöru lykilhlutverki allan vinnutíma hverfisskipulagsins og lögð áhersla á að íbúar hafi aðkomu að skipulagsgerðinni á öllum stigum. Eins og kemur fram að ofan er samráðinu skipt í sex þrepa ferli. Vinnuferli hverfisskipulagsins er hinsvegar í grófum dráttum skipt í þrjá fasa og ólíkum samráðsaðferðum beitt í hverjum fasa.
1. fasi
Hugmyndaleit og stefnumótun
Í fyrsta fasa er leitað hugmynda og athugasemda hjá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Á þessu stigi vinnunnar er ýmsum samráðsaðferðum beitt til að ná til sem flestra og fá heildaryfirsýn yfir málefni hverfisins og hugmyndir íbúa.
Meðal annars er notast við aðferðir sem kallaðar hafa verið skapandi samráð þar sem börn í grunnskólum útbúa módel af hverfinu sem síðar er notað í samtali við íbúa um málefni hverfisins. Einnig er notast við netkannanir, rýnihópa, stofnaður eldhugahópur og fundað reglulega með íbúaráðum.
Niðurstöðurnar úr þessu fyrsta samráði hjálpa við að greina helstu áskoranir framundan og hugmyndir íbúa til síns hverfis. Út frá þeim er stefnan tekin fyrir framhald skipulagsvinnunnar.
2. fasi
Kynning á vinnutillögum
Annar fasi vinnunnar hefst þegar svokallaðar vinnutillögur að hverfisskipulagi er kynntar. Kynningartíminn er að lágmarki sex vikur.
Í vinnutillögum er sett fram stefna og hugmyndir sem byggja á greiningum á hverfunum og þeim niðurstöðum sem dregnar voru af samráði í fyrsta fasa vinnunnar. Það geta verið hugmyndir um samgöngumál, styrkingu nærþjónustu, grænar áherslur, breytingar á fasteignum, mögulega þéttingarreiti og ýmislegt annað.
Vinnutillögurnar eru kynntar bæði á vef Reykjavíkurborgar og með sýningum á fjölförnum stöðum í hverfunum. Á sýningunum er hægt að ræða við starfsfólk hverfisskipulagsins og skipulagsráðgjafa um tillögurnar. Til að vekja enn frekari athygli á tillögunum eru skipulagðar hverfisgöngur þar sem færi gefst á að ræða tillögurnar og haldnir íbúafundir.
Kallað er eftir athugasemdum og ábendingum frá íbúum og hagsmunaaðilum við vinnutillögurnar. Athugasemdir er hægt að senda í tölvupósti eða bréfpósti eða fylla út eyðublöð á sýningunni í hverfinu. Einnig er stuðst við netkannanir til að ná til stærri hóps íbúa.
3. fasi
Kynning á lokatillögum
Þriðji og síðasti fasi hefst með kynningu á lokatillögum að nýju hverfisskipulagi. Það eru fullunnar skipulagstillögur með skipulagsuppdrætti, greinargerð og skilmálum sem tekið hafa mið af fyrri samráðsniðurstöðum. Kynningartíminn er að lágmarki sex vikur.
Aftur er sett upp sýning á tillögunum úti í hverfunum og á vef borgarinnar. Einnig er haldinn sérstakur kynningarfundur í hverfinu sem jafnframt er sendur út í beinu streymi. Á kynningartímanum gefst íbúum og öðrum hagsmunaaðilum enn og aftur tækifæri til að gera athugasemdir við skipulagstillögurnar með formlegum hætti. Öllum athugasemdum er svarað efnislega og gerðar breytingar á skipulagstillögunum ef þurfa þykir.
Að kynningartímanum loknum er nýtt hverfisskipulag sent til birtingar og gildistöku í Stjórnartíðindum.
Um verkefnið
Fyrirspurnir, fréttir, ábendingar og fleira má senda á netfangið hverfisskipulag@reykjavik.is
Verkefnið heyrir undir embætti skipulagsfulltrúa á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.