Mín eign
Hverfisskipulag heimilar víða viðbyggingar og breytingar á íbúðarhúsum. Einnig er á mörgum stöðum heimilt að búa til aukaíbúð innan núverandi íbúðar eða í bílskúr. Þannig verður auðveldara fyrir íbúa að gera breytingar á sínum eignum og dýrar og tímafrekar grenndarkynningar og deiliskipulagsbreytingar að mestu óþarfar.
Til að sjá hvaða breytingar þú mátt gera þarft þú að skoða hvaða skilmálar gilda fyrir þína eign í hverfisskipulagi.
Aukaíbúðir
Ef þú býrð í einbýlishúsi, parhúsi eða raðhúsi getur verið að hverfisskipulag heimili þér að útbúa aukaíbúð. Slíkar heimildir eru veittar mjög víða þar sem aðstæður leyfa.
Aukaíbúðum má koma fyrir innan núverandi íbúðar eða í viðbyggingu ef hún er heimiluð. Í sumum tilfellum getur verið heimilt að útbúa aukaíbúð í bílskúr, jafnvel við minni sambýlishús.
Með því að útbúa aukaíbúð má oft koma illa nýttum rýmum í betri notkun og margir geta aðlagað húsnæði sitt að breyttum þörfum, til dæmis eftir að börnin fara að heiman. Aukaíbúð getur líka verið góður kostur fyrir fjölskyldumeðlimi, eins og ungt fólk sem er að byrja búsetu eða afa og ömmu sem óska þess að vera nálægt fjölskyldunni. Heimilt er að leigja út aukaíbúðir en ekki má selja þær frá aðalíbúð. Ef eigandi óskar má sameina íbúðirnar aftur síðar.
Ef nýta á heimild fyrir aukaíbúð þarf fyrst að sækja um byggingarleyfi og sýna fram á að kröfur byggingarreglugerðar um gæði íbúða séu uppfylltar.
Sérbýlishús og lítil sambýlishús
Ef þú átt einbýlishús, parhús eða raðhús getur verið að hverfisskipulag veiti þér heimild til að byggja við. Margir eigendur minni sambýlishúsa, til dæmis tví-, þrí og fjórbýlishúsa, fá líka heimildir til viðbygginga.
Mismunandi er hversu miklar heimildir eigendur íbúða fá til stækkunar. Það getur ráðist af mörgum þáttum, svo sem gerð húsnæðisins, stærð lóðar, eldri heimildum til stækkunar og ýmsu öðru.
Fjölbýlishús án lyftu
Ef þú býrð í lyftulausu fjölbýlishúsi getur verið að hverfisskipulag veiti húsfélaginu þínu heimild til að byggja eina hæð ofan á núverandi hús. Um leið þarf að koma fyrir lyftu við húsið. Slíkar heimildir eru veittar þar sem henta þykir og þar sem þær ganga ekki gegn öðrum ákvæðum, svo sem um verndun húsa eða götumynda.
Í Reykjavík eru þúsundir íbúða í lyftulausum fjölbýlishúsum sem henta mörgum illa, til dæmis fólki með skerta hreyfigetu og eldra fólki. Á Íslandi er mjög sjaldgæft að gerðar hafi verið breytingar á þessum húsum til að koma fyrir lyftu, þótt slíkt sé vel þekkt víða um heim.
Nýr byggingarréttur er verðmætur og getur húsfélagið nýtt hann til að fjármagna lyftu og annað viðhald á húsi og lóð.
Breytingar á húsi
Getur kvistur bætt nýtinguna á risinu hjá þér eða væri jafnvel hægt að hækka þakið? Eru engar svalir við íbúðina þína eða dreymir þig um svalalokun á núverandi svalir? Í hverfisskipulagi geta ýmsar breytingar og endurbætur verið heimilaðar sem gætu gert góða íbúð betri.
Það er margt sem getur haft áhrif á hvaða breytingar eru heimilaðar á íbúðarhúsum, til dæmis aldur húsa og byggingarstíll. Einnig getur verið í gildi vernd á tilteknum húsum eða hverfishlutum sem takmarkar hvaða breytingar má gera.
Aðrar byggingar á lóð
Ýmsar breyttar þarfir og lifnaðarhættir undanfarin ár hafa orðið til þess að skýlum og smáhýsum á lóðum hefur fjölgað víða. Oftast er um að ræða geymslur fyrir hjól og garðáhöld, gróðurhús og sorplausnir, sérstaklega í eldri byggð þar sem erfitt er að koma slíku fyrir innan núverandi húss.
Hverfisskipulag gefur heimildir fyrir slíkum smáhýsum og skýlum og auðveldar íbúum að aðlaga húsnæði sitt að nútímaþörfum. Í skilmálum skipulagsins og í leiðbeiningum um aðrar byggingar á lóð, sem fylgja hverfisskipulagi, koma fram nánari skilyrði svo sem um fjölda, stærð og staðsetningu á lóðinni.
Starfsemi í íbúðum
Hverfisskipulag veitir þér heimild til að stunda ýmis konar létta atvinnustarfsemi í íbúðinni þinni.
Atvinnustarfsemi í íbúðabyggð er ekki ný af nálinni. Mörg fyrirtæki hafa orðið til í stofu, kjallara eða bílskúr hjá frumkvöðlum sem hafa fengið góða hugmynd og notað heimili sitt til að þróa sín fyrstu sprotafyrirtæki.
Heimildir til atvinnustarfsemi innan íbúðarbyggðar geta eflt mannlíf, fjölgað atvinnutækifærum og hvatt til nýsköpunar. Í skilmálum og leiðbeiningum hverfisskipulags kemur fram hvaða takmarkanir gilda, til dæmis um umfang og eðli starfsemi innan íbúðarbyggðar.