Hinseginfræðsla fyrir miðstig grunnskóla

Það eru hinsegin börn í öllum skólum og eru þau alls konar, rétt eins og önnur börn. Hinsegin börn eiga það þó sameiginlegt að falla út fyrir það sem telst normið eða viðmiðið hvað varðar kynhneigð, kyntjáningu, kyneinkenni og/eða kynvitund. Hér er verkfærakista með námsefni í hinseginfræðslu fyrir miðstig sem inniheldur ýmiskonar efni s.s. bækur, kennsluhugmyndir og myndbönd. 

Teiknimyndir með hinsegin ívafi

Þrjár stuttar teiknimyndir með hinsegin söguhetjum. Myndirnar geta verið kveikjur að umræðum um hinsegin málefni, tilfinningar og ást.

Efni: Jafnrétti - Kynheilbrigði - Mannréttindi - Sjálfsmynd - Staðalímyndir

Hinsegin frá Ö til A

Hér er vefsíða um allt sem tengist hinsegin málefnum. Hægt að fletta upp orðum og hugtökum og fá útskýringar á merkingu þeirra.

Viðfangsefni: Jafnrétti - Mannréttindi - Sjálfsmynd - Staðalímyndir - Hinsegin - Trans

Bækur og námsefni

Askur og prinsessan er ævintýrasaga um hann Ask sem reynir að bjarga prinsessu. Í sögunni eru hinsegin aukapersónur sem fella hugi saman. Viðfangsefni: Jafnrétti - Hinsegin

Co to jest Queer? er upplýsingabæklingur og plakat um grunnhugtök hinseginleikans á pólsku.

Ég, þú og við öll er kennslubók sem inniheldur sögur og staðreyndir um jafnrétti í víðu samhengi. Með bókinni fylgja kennsluleiðbeiningar.

Hvað er hinsegin? / What is queer? er upplýsingabæklingur og plakat um grunnhugtök hinseginleikans á íslensku og ensku

Kyn er allskonar er falleg myndasaga um kynvitund og kyntjáningu.

Ofur mjúkar hetjur / Ofur sterkar prinsessur eru litabækur með ofurhetjum og prinsessum sem afbyggja staðalmyndir, eftir sænsku listakonuna Linnea Johanson.

Rokk og róttækni er rafbók um æskulýðsróttæknina sem leiddi af sér frjálslyndara samfélag sem kom meðal annars fram í auknum réttindum kvenna og samkynhneigðra. Í bókinni eru æfingaverkefni í heimildavinnu.

Kyn, kynlíf og allt hitt er bók um kyn, kynlíf og kynverund og allt mögulegt sem tengist líkama og samskiptum. Hér er talað um kynlíf á opinn hátt, gert er ráð fyrir fjölbreytileikanum og bókin því ekki  útilokandi. Gott getur verið að grípa í bókina ef börn sýna óæskilega kynhegðun til að útskýra fyrir þeim hvað má og hvað má ekki. 

Sparkle boy er bók á ensku um strákinn Casey sem elskar allt sem glitrar og glóir. Viðfangsefni: Jafnrétti - Hinsegin - Staðalímyndir - Kynhlutverk

Við erum ein fjölskylda er verkefni tekið úr mannréttindamenntunar bókinni Kompás fyrir börn. Markmið verkefnisins er m.a. að stuðla að umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika og því sem er frábrugðið hinu hefðbundna. Viðfangsefni: Jafnrétti - Staðalímyndir - Hinsegin - Fjölbreytileiki

Kynhyrningurinn og kynjakakan

Hér eru myndir með útskýringum á hugtökunum kynhneigð, kyntjáning, kynvitund og kyneinkenni. Myndirnar henta vel sem verkfæri til að kenna börnum um muninn á kynvitund, kyntjáningu og hverjum fólk laðast að.

Hinsegin börn og fjölskyldur

Mikilvægt er að gera ráð fyrir því að foreldrar, forsjáraðilar og fjölskyldur nemenda geta verið hinsegin. Huga þarf að ýmsum þáttum til þess bæði að tryggja það að hinsegin fjölskyldur séu teknar með í reikninginn, finni fyrir því að þær séu velkomnar og gert sé ráð fyrir þeim, en einnig til þess að nemendur upplifi sig ekki út undan eða frávik fyrir það að eiga hinsegin fjölskyldu. Það þarf að huga að því hvernig fjölskyldur eru ávarpaðar, hverjum er gert ráð fyrir á eyðublöðum, hvernig þeim er boðið að taka þátt í skólastarfi, hvernig talað er um fjölskyldur í skólastofunni o.s.frv. Einnig þarf að huga að minnihlutaálagi hjá hinsegin foreldrum og forsjáraðilum.

Það er því mikilvægt að það sé skýrt að hinsegin fjölskyldur séu velkomnar. Rétt eins og með nemendur þá er vert að spyrja sig: „Hvernig vita hinsegin foreldrar og fjölskyldur að þau séu velkomin og að hér sé að finna stuðningsríkt umhverfi?“ Einnig getur vel verið að starfsfólk skólans eigi börn, foreldra, systkini eða aðra fjölskyldumeðlimi sem eru hinsegin og er því mikilvægt að tryggja hinseginvæna orðræðu.