Hátíðir og tyllidagar

Teiknuð mynd af börnum að lesa og skrifa við borð í skólastofu.

Útskýringar á íslenskum hátíðisdögum og siðum. Á Íslandi eru 16 lögbundnir frídagar á ári og að auki eru ýmsir tyllidagar sem haldið er upp á með einum eða öðrum hætti.

Þorrablót

Þorrablót var hátíð á öldum áður þegar Íslendingar blótuðu Þór sem var guð í norrænni ásatrú. Nú til dags fagna Íslendingar þorrablóti á sama tíma til að fagna þorramánuði sem áður var á dagatali Íslendinga. Í gamla daga var árinu skipt í tvær árstíðir, sumar og vetur. Þorri var fjórði mánuður vetrar og var frá 19.-25. janúar til 18.-24. febrúar. 

Fyrsti dagur þorra var bóndadagur. Íslendingar halda þorrann hátíðlegan með því að borða hefðbundinn vetrarmat sem var það eina sem var í boði yfir vetrartímann. Maturinn var yfirleitt fiskur og kjöt sem var geymt í salti og sýru.

Í dag fagna Íslendingar þorranum með mikilli skemmtun þar sem sungið er og dansað og snæddur matur sem mörgum finnst ógeðfelldur. Þar má nefna blóðmör og lifrarpylsu sem saman er kallað slátur, sviðnir kindahausar (svið), kæstur hákarl og súrir hrútspungar. Annar eðlilegri matur er rúgbrauð sem áður var bakað við jarðhita, skyr, hangikjöt og harðfiskur með smjöri.

Teikning af Fjólu að borða mat í skólanum

Bóndadagur

Fyrsti dagur mánaðarins þorra í gamla norræna tímatalinu er nefndur bóndadagur. Hann er alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar. Sú hefð hefur skapast að konur gefi bónda sínum blóm eða smágjöf á þessum degi.

Konudagur

Konudagur er fyrsti dagur mánaðarins góu í gamla norræna tímatalinu sem er sunnudagurinn í 18. viku vetrar á milli 18. – 24. febrúar. Sú hefð er að menn gefi konum blóm í tilefni konudagsins.

Bolludagur

Á Íslandi hefur tíðkast að borða bollur sem eru annaðhvort vatnsdeigsbollur eða gerbollur fylltar með alls kyns rjóma og sultu. Rík hefð var fyrir því að föndraðir væru bolluvendir, oftast úr litríkum pappírsræmum sem límdar voru á prik. Börn flengdu svo foreldra sína með vendinum og hrópuðu; Bolla! Bolla! Bolla!

Sprengidagur

Á þessum degi tíðkast á flestum heimilum á Íslandi að elda réttinn „Saltkjöt og baunir“.

Öskudagur

Á þessum degi er hefð fyrir því að börn klæði sig í grímubúning og syngi fyrir fólk og fái að launum sælgæti. Að hengja öskupoka á fólk tíðkast eða tíðkaðist á Íslandi og var lykilatriðið að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.

Páskar

Páskahátíðin tengist kristinni trú. Síðasti sunnudagur fyrir páska nefnist pálmasunnudagur. Fimmtudagur fyrir páska heitir skírdagur og daginn eftir er föstudagurinn langi en þá er frídagur. Páskadagur er sunnudagur og þá borða börn og fullorðnir súkkulaði sem kallast páskaegg.

Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19. – 25. apríl. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að bæjarfélög haldi ýmiss konar hátíðir fyrir börn og fjölskyldur þeirra á þessum degi.

Sjómannadagur

Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní ár hvert. Hann er hátíðisdagur allra sjómanna. Flest bæjarfélög halda upp á þennan dag með einhvers konar skemmtidagskrá við höfnina.

 

Skrúðganga á 17. júní

17. júní

Íslenski þjóðhátíðardagurinn er haldinn hátíðlegur 17. júní ár hvert. Það er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar og almennur frídagur. 

Á 17. júní er fjölbreytt hátíðardagskrá til að minnast lýðveldi Íslands þann 17. júní 1944.

Verslunarmannahelgi

Frídagur verslunarmanna er fyrsti mánudagur í ágústmánuði. Hann myndar þriggja daga helgi sem kölluð er verslunarmannahelgi. Frídagur verslunarmanna var upphaflega bara fyrir verslunarmenn en þessi þriggja daga helgi varð mjög vinsæl sem almenn ferðahelgi og mánudagurinn er nú lögboðinn frídagur. Helgin er ein mesta ferðahelgi ársins og fjölbreyttar útihátíðir eru haldnar víða um landið.

Þorláksmessa

Þorláksmessa er þann 23. desember. Hún er kennd við Þorlák hinn helga Þorláksson biskup í Skálholti en hann lést þennan dag. Í dag er Þorláksmessa hluti af jólaundirbúningnum og þá borða margir kæsta skötu og lyktin af þorláksmessuskötunni finnst um allan bæ.

Jólatré á Austurvelli.

Jól

Jól eru haldin hátíðleg þann 24. desember. Jólin eru hringd inn klukkan sex á aðfangadagskvöld. Jólamaturinn er oftast kjötmeti s.s. rjúpa, hangikjöt eða hamborgarahryggur ásamt meðlæti. Flestir verja aðfangadagskvöldi með fjölskyldunni og opna gjafir eftir jólamatinn. Jólaskreytingar eru áberandi á Íslandi og jólaljósin lýsa upp dimmasta skammdegið.

Flugeldar á gamlárskvöld

Gamlársdagur

Gamlársdagur er síðasti dagur almanaksársins, 31. desember, í vestrænni menningu. Margir minnast liðins árs á gamlárskvöld og fagna hinu nýja ári með veisluhöldum og með því að skjóta upp flugeldum. Ýmsar hefðir eru í kringum hátíðarhöld og víða eru áramótabrennur.