Hallargarðurinn

Útivistarsvæði

Fríkirkjuvegur 7–11
101 Reykjavík

Séð yfir Hallargarðinn frá Fríkirkjuvegi.

Um Hallargarðinn

Hallargarðurinn við Fríkirkjuveg er með fallegri almenningsgörðum í Reykjavík. Blómaskrúð, listaverk, glæsileg hús og útsýni yfir Tjörnina úr austri gefur garðinum tignarlega og hlýlega ásýnd. Jafnfram tengist hann óbeint Hljómskálagarðinum sem liggur skáhallt í mót hinum megin við Sóleyjargötu og Skothúsveginn.

Við Hallargarðinn stendur hið glæsilega hús Thors Jenssonar (betur þekkt sem Bindindishöllin) sem er timburhús í nýklassískum stíl og af mörgum talið eitt fegursta hús Reykjavíkur. Þá stendur Kvennaskóli Reykjavíkur og Listasafn Íslands við garðinn norðanverðan. Í garðinum er að finna ýmis listaverk til dæmis styttuna Adonis eftir Bertel Thorvaldsen.

Grunnupplýsingar

Aldur: 1954.

Samgöngur:

  • Bílastæði við Fríkirkjuveg og Skothúsveg. Gjaldskylda virka daga kl. 10:00 - 18:00 og laugardaga kl. 10:00 - 16:00.
  • Strætóleiðir: 1-3-6-11-13-14. Stöð: Fríkirkjuvegur.

Þar má finna: Garðyrkja - Bekkir - Listaverk - Arkitektúr.

Saga

  • Hús Thors Jenssonar reis árið 1908. Reykjavíkurborg eignaðist húsið 1963 og lengi vel voru þar til húsa skrifstofur íþrótta – og tómstundaráðs.
  • Hallargarðurinn var hannaður af Jón H. Björnssyni landslagsarkitekt á sjötta áratug 20. aldar. og var garðurinn formlega opnaður 18. ágúst 1954.
  • Höggmyndin Stúlkumynd (einnig kölluð Soffía) eftir Ólöfu Pálsdóttur stendur fyrir framan Kvennaskólann.
  • Höggmyndin Piltur og stúlka eftir Ásmund Sveinsson stendur ofarlega í garðinum.
  • Á sjöunda áratugnum kom til umræðu að Seðlabanki Íslands myndi rísa á lóð Hallargarðsins sem þá hefði verið eyðilagður. Hátt í 4.000 undirskriftir söfnuðust til að mótmæla þessum framkvæmdum og á endanum fékk Seðlabankinn lóð við norðanverðan Arnarhól í staðinn.
  • Samtökin Hollvinir Hallargarðsins voru stofnuð 2008.

Heimildir

  • Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
  • Jón h. Björnsson. 1988. "Upphaf íslensk landslagsarkitektúrs". Arkitektúr og skipulag.