Saltað í stað þess að sanda

Sorphirða Umhverfi

Þann 14. nóvember síðastliðinn hófst eiginlegt vetrarþjónustutímabil í borginni og er starfsfólk tilbúið fyrir veturinn. Þó hann hafi verið snjóléttur hingað til hefur þó nokkuð verið kallað út í hálkuvarnir á stofn- og tengibrautum. Arctic Images/Ragnar Th.
Fólk á göngu yfir götu.

Meiri áhersla er nú lögð á söltun gönguleiða heldur en áður í vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. Stefnt er að því að minnka sandnotkun og salta í meira mæli þegar verið er að hálkuverja göngustíga.  Vonast er til að þetta geri þrif á stígunum auðveldari og fljótlegri að vori og stuðli að minnkun svifryks. Hjólastígar verða sem fyrr saltaðir.

Þann 14. nóvember síðastliðinn hófst eiginlegt vetrarþjónustutímabil í borginni og er starfsfólk tilbúið fyrir veturinn. Þó hann hafi verið snjóléttur hingað til hefur þó nokkuð verið kallað út í hálkuvarnir á stofn- og tengibrautum.

Salt og sandur fyrir íbúa

Íbúar Reykjavíkurborgar geta sem fyrr nálgast salt  og sand til að hálkuverja við heimili sitt en hægt er að sækja salt og sand á opnunartíma þjónustumiðstöðvar borgarlandsins við Stórhöfða. Einnig eru kistur með salti og sandi fyrir utan hverfastöðvarnar á Fiskislóð og Jafnaseli. Mikilvægt er að muna að moka gönguleiðir þegar snjóar og hálkuverja þær til að tryggja að sorphirða geti farið fram með eðlilegum hætti.

Þegar snjór fellur eða hálka myndast í Reykjavík er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vetrarþjónustu. Aðstæður eru vaktaðar reglubundið og mannskapur kallaður út eftir þörfum.