Nýr staður fyrir almenningsmarkað

Valdís Óskarsdóttir: Útimarkaður í júní 1981

Leita á eftir nýju húsnæði fyrir almenningsmarkað í miðborg Reykjavíkur. Borgarráð samþykkti í gær að undirbúin yrði markaðskönnun til að finna nýjan stað fyrir slíka starfsemi, en Tollhúsið sem notað hefur verið í þessum tilgangi verður í framtíðinni nýtt undir starfsemi Listaháskólans. 

Tilgangur markaðskönnunar er að laða fram hugmyndir og upplýsingar frá áhugasömum aðilum um mögulega staðsetningu fyrir nýjan almenningsmarkað í miðborginni og er markmiðið að hefja viðræður við þá aðila sem kunna að eiga hentugt húsnæði og/eða svara auglýsingu. Gert er ráð fyrir að auglýst verði á næstu vikum. 

Könnunin mun meðal annars byggja á greiningu hönnunarstofunnar m / studio_ á þörfum og mögulegri staðsetningu og var greiningin kynnt í borgarráði í gær. Gert er ráð fyrir að tillögur starfshóps um almenningsmarkað í miðborginni að næstu skrefum liggi fyrir í haust.    

Flóamarkaðir setja svip á bæinn

Flóamarkaður í miðborg Reykjavíkur undir heitinu Kolaportið var fyrst opnaður laugardaginn 8. apríl 1989 og var hann staðsettur í bílgeymslum Reykjavíkurborgar undir Seðlabanka Íslands við Arnarhól og tók nafn sitt af þeirri staðsetningu.  Fjölmiðlar greindu frá því að 13 þúsund manns hefðu komið á opnunina. Fimm árum síðar, 15. maí 1994, flutti Kolaportið sig um set á jarðhæð Tollhússins við Tryggvagötu og hefur verið þar síðan. Það var Þróunarfélag Reykjavíkur sem leigði húsið af Fjármálaráðuneytinu og endurleigði aftur til félags um Kolaportið. 

Listaháskóli Íslands fer í Tollhúsið

Listaháskóli Íslands er í dag starfræktur á nokkrum stöðum víða um borgina. Lengi hefur verið til umræðu að tryggja þurfi hentugra framtíðarhúsnæði fyrir skólann og ýmsir valkostir verið skoðaðir. Þann 7. maí 2022 urðu vatnaskil í húsnæðismálum skólans en þá undirrituðu borgarstjóri, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, forsætisráðherra, og fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins viljayfirlýsingu um framtíðarhúsnæði hans í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Í aðdraganda þessara tímamóta ákvað borgarráð að skipa fyrrgreindan starfshóp til að rýna málefni almenningsmarkaðar í Reykjavík og setja fram tillögur að framtíðarskipan mála.

Almenningsmarkaðir mikilvægir fyrir mannlífið

Haustið 2022 leitaði Reykjavíkurborg til hönnunarstofunnar m / studio_ um greiningu á húsnæðisþörfum og mögulegum staðsetningum. Greiningin, sem lögð var fram í borgarráði í gær og fylgdi tillögu um markaðskönnun, var unnin á síðasta ári og byggir m.a. á vettvangsrannsókn í Kolaportinu í Reykjavík og mati á rýmisþörf almenningsmarkaða. 

Í greiningunni er bent á gildi slíkra markaða fyrir mannlíf og bent á að skv. rannsóknum séu félagslegir þættir ein helsta ástæða þess að fólk sæki almenningsmarkaði. Þá segir að til að þeir njóti velgengni þurfi þeir að vera samkomustaðir heimafólks en þeir séu meðal fárra staða þar sem fólk af ólíkum félags- og menningarlegum uppruna safnist saman. Almenningsmarkaðir þurfi að endurspegla fjölbreytni samfélagsins svo öll hafi þangað eitthvað að sækja og finni sig velkomin. 

Þá er rætt um mikilvægi markaðanna fyrir upplifun ferðafólks, að vöruframboð höfði til ólíkra hópa og sé fyrirsjáanlegt en líka óvænt, að leiga á sölubásum sé lág, að boðið sé upp á fjölbreytta viðburði, að staðsetning sé góð og húsnæði sé aðgengilegt, hentugt, eftirminnilegt, aðlaðandi og bjóði upp á gott flæði. Þá er talað um heildstætt yfirbragð og mikilvægi sterks vörumerkis.

Í greiningunni er stuðst við ramma sem byggir m.a. á greiningum og rannsóknum sem samtökin Project for Public Space (www.pps.org) hafa tekið saman. Stuðst er við nokkur viðmið sem talin eru hafa hvað mest áhrif á velgengni almenningsmarkaða en þau eru:

  • Sýnilegt og eftirtektarvert húsnæði
  • Nálægð við aðra þjónustu og á svæði sem fólk safnast nú þegar saman á 
  • Gott aðgengi fyrir fótgangandi og akandi, nálægð við almenningssamgöngur 
  • Góð aðkoma fyrir vöruflutninga og bílastæði í grennd 
  • Húsnæði henti vel undir starfsemina

Rýmisþörf og vænlegar staðsetningar

Í greiningu m / studio_ er ekki talað um einhverja eina ákveðna stærð varðandi heildar rýmisþörf almenningsmarkaðar en fremur horft til framangreindra viðmiða. Fjallað er um rýmisþörf sölubása, göngu-, veitinga- og viðburðasvæða og rætt um að hentugast sé að húsnæði sé á einni hæð, að það sé sveigjanlegt og að þar sé hátt til lofts og vítt til veggja. Fram kemur að Kolaportið sé í dag um 2.250 m2 að heildargólfleti og talað er um að 1.200 m2 markaður væri í minni kantinum. 

Litið er til ýmissa fyrirmynda erlendis og teflt fram hugmyndum um nokkrar staðsetningar í Reykjavík sem höfundar telja að gæti verið spennandi að skoða frekar og þær greindar út frá framangreindum viðmiðum. Sjá nánar í skýrslu m / studio_.       

Nánari upplýsingar: