Listaháskóli Íslands fær framtíðarhúsnæði í Tollhúsinu

Frá undirritun viljayfirlýsingar um framtíðarhúsnæði LHÍ í Tollhúsinu. Á myndinni f.v. eru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,  Fríða Ingvarsdóttir, rektor LHÍ og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Viljayfirlýsing um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands (LHÍ) í Tollhúsinu við Tryggvagötu var undirrituð í dag.

Um langt skeið hefur verið til umræðu að tryggja þurfi framtíðarhúsnæði fyrir LHÍ og hafa ýmsir valkostir verið skoðaðir undir starfsemina.

Meginhlutverk LHÍ er að stuðla að nýsköpun og samþættingu listgreina ásamt því að gegna mikilvægu hlutverki fyrir skapandi greinar, sem er ein af undirstöðum fjölbreytts atvinnulífs og nýsköpunar. Nú liggur fyrir val á hentugri staðsetningu undir þessa mikilvægu starfsemi og er undirritun yfirlýsingarinnar því sérstakt fagnaðarefni.

Listaháskólinn er í dag starfræktur í fjórum mismunandi byggingum, sem bráðlega verða fimm talsins er kvikmyndalistadeild opnar í Borgartúni í haust. Af þessum stöðum er húsnæðið við Laugarnesveg 91 það eina sem tryggt er skólanum til lengri tíma. LHÍ stefnir að því að geta hafið kennslu í Tollhúsinu á næstu 3-5 árum.

Vinnuhópur um framtíðarhúsnæði LHÍ skipaður af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra með aðild forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Listaháskólans, skilaði nýlega af sér minnisblaði þar sem fram kemur að áætlaður stofnkostnaður við framkvæmdir á Tollhúsinu er um 10,8 milljarðar til viðbótar við áætlað virði hússins, sem er um 2 milljarðar króna. Tillaga vinnuhópsins, sem lögð hefur verið fyrir ríkisstjórn, metur kostnað við flutningana um 451 milljónir árlega sem er nálægt núverandi leigukostnaði skólans auk þess mikla hags sem felst í því að færa alla starfsemi í eitt húsnæði. Miðað er við að ríkissjóður fjármagni framkvæmdina en muni á móti fá þann ágóða sem hlýst af því að þróa húsnæðið við Laugarnesveg til að standa undir fjárfestingunni.

Viljayfirlýsingin markar tímamót í sögu LHÍ en hann felur í sér að allar deildir skólans sameinast undir einu þaki í fyrsta sinn frá stofnun skólans. Flutningur allrar starfsemi í Tollhúsið, sem nú fær nýtt hlutverk sem kjarni skapandi greina á Íslandi, hefur í för með sér aukin tækifæri fyrir Listaháskólann og gerir skólann að eftirsóknarverðum valkosti.

Viljayfirlýsinguna undirrituðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur ásamt fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins.