Borgarráð - Fundur nr. 5735

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 15. febrúar, var haldinn 5735. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. febrúar 2024:

    Lagt er til að borgarráð hafni tilboðum að nafnvirði 250 m.kr. í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1 og samþykki tilboð að nafnvirði 3.765 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 8,42% í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, sem eru 2.086 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 14. febrúar 2024.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010012

    Fylgigögn

  2. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir janúar-nóvember 2023, dags. 15. febrúar 2024.

    Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23060028

  3. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 13. febrúar 2024, varðandi ósk um samþykki fyrir skilmálabreytingu á lánasamningi Orkuveitu Reykjavíkur hjá Evrópska fjárfestingarbankanum, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2024.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24020013

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar og viðaukum, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistar leggjast gegn því að borgin noti innheimtufyrirtæki til að rukka borgarbúa. Innheimtufyrirtæki eiga ekki að græða á erfiðri efnahagsstöðu borgarbúa. Fátækt fólk sem er ekki í aðstöðu til þess að greiða reikninga á ekki að þurfa að kljást við slík innheimtufyrirtæki.

    Halldóra Káradóttir, Bjarki Rafn Eiríksson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010040

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að næstu skref í þróun á Hringrásargarði á Álfsnesi verði samkvæmt hjálögðu minnisblaði. Jafnframt er lögð fram til kynningar skýrslan Hringrásargarður á Álfsnesi – fýsileikagreining unnin fyrir starfshóp Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila af ráðgjafateyminu ReSource International ehf., Transition Labs ehf. og M/STUDIO Reykjavik ehf.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Óli Örn Eiríksson, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, Hafliði Eiríkur Guðmundsson, Kristbjörg María Guðmundsdóttir og Vilborg Guðjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23050036

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna hugmyndum um að settur sé á fót hringrásargarður og leggja ríka áherslu á að slíkur garður standi bæði smáum sem stórum fyrirtækjum og frumkvöðlum til boða, sem og að miðstýring verði sem minnst svo nýsköpun sé ekki of þröngur stakkur sniðinn. Jafnframt árétta fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægi þess að við val á nýrri staðsetningu fyrir skotsvæðið sé tryggt að nýtt svæði verði ekki síðri kostur fyrir skotíþróttamenn en núverandi svæði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram í bókun það sem fram kemur í framlögðum gögnum um veikleika Álfsness fyrir Hringrásargarð, t.d. þegar horft er til viðskiptatækifæra. Þá er fyrst að nefna óvissu um tímasetningu Sundabrautar. Einnig að fjármögnunarstaða Reykjavíkurborgar er veik til skemmri tíma. Svæðið er óaðlaðandi og svartasti bletturinn er skotæfingasvæðið sem er staðsett á ætluðu iðnaðarsvæði. Tekið er undir að það er knýjandi að sett verði af stað vinna við að finna nýjan stað undir skotæfingasvæði á höfuðborgarsvæðinu svo hægt verði að rýma svæðið fyrir hringrásargarð. Talað er um í gögnum að höfn verði gerð. Það er áhyggjuefni því að höfn fylgir mikil landfylling sem gengur á fjörur sem eru lífauðugustu svæðin í borgarlandinu. Væri ekki hægt að nýta höfn Björgunar sem er þar skammt frá? Ekki virðist vera hugsað um nýtingu glatvarma sem myndast við nærri alla iðnaðarstarfsemi en sá varmi er yfirleitt látinn fara út í umhverfið, heldur er talað um kælingu með sjó. Miklu eðlilegra væri að nota vatn sem hitnar við að kæla framleiðsluferla og væri hægt að setja inn á hitaveitukerfi. Nýting glatvarma hlýtur að verða hluti af hringrásargarði. Annars er hugmyndin um hringrásargarð góð og stuðlar að bættri nýtingu efna.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að undirbúa markaðskönnun vegna nýrrar staðsetningar á almenningsmarkaði í miðborg Reykjavíkur. Útfærslan byggi m.a. á hjálagðri greiningu á þörfum og mögulegri staðsetningu nýs markaðar. Ósk um heimild til framkvæmdar markaðskönnunar verði lögð fyrir forsætisnefnd þegar útfærsla liggur fyrir.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Óli Örn Eiríksson, Hulda Hallgrímsdóttir, Hilmar Hildarson Magnússon, Kristbjörg María Guðmundsdóttir og Vilborg Guðjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040218

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skoða á að undirbúa markaðskönnun vegna nýrrar staðsetningar á almenningsmarkaði í miðborg Reykjavíkur og á útfærslan að byggja m.a. á greiningu á þörfum og mögulegri staðsetningu nýs markaðar sem kynnt er. Fulltrúa Flokks fólksins finnst spurning hvort almenningsmarkaður þurfi að vera í miðborginni. Svæði stutt frá miðborginni gætu líka hentað. Gallinn við markað í miðborginni er að þangað skreppa menn ekki til að kaupa í matinn. Aðgengi að markaði í miðborginni er einnig erfitt nema fyrir ferðamenn og íbúa miðborgar. Ferskt er í minni slæmt aðgengi að Kolaportinu fyrir þá sem komu akandi. Umferð í miðbæinn er gríðarleg og þá ekki aðeins að morgni og seinnipartinn. Skoða mætti að setja upp tvo markaði, minni í sniðum en þar sem seld væri t.d. ferskvara s.s. óunninn fiskur en slík vara er enn eftirsótt af sumum en ekki lengur til í fiskbúðum. Ekkert er minnst á þennan þátt í framlögðum gögnum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 13. febrúar 2024, varðandi viðhorfskönnunina stofnun ársins 2023 sem lögð var fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar í október og nóvember 2023.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23020006

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn er ákaflega stoltur af þeim megin niðurstöðum sem koma fram í starfsánægjukönnun Reykjavíkurborgar, Stofnun ársins 2023. Niðurstöðurnar sýna að það er gott að vinna hjá borginni og að menningin á vinnustöðum er heilbrigð, fólki líður almennt vel og hefur bæði sveigjanleika og upplifir stuðning í starfi. Meirihlutinn er þakklátur mannauðsfólki borgarinnar sem leiðir frábært faglegt starf, starfsfólki til leiðbeiningar. Við viljum að fólki líði vel í vinnunni og að vellíðan sé hluti af stefnumótun.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi könnun náði til rúmlega 9.000 starfsmanna Reykjavíkurborgar en svörin sem bárust voru rúmlega 5.000 og er svarhlutfall 58%. Lægst er svarhlutfall á skóla- og frístundasviði eða 48% en hæst á mannauðs- og starfsumhverfissviði eða 94% sem kemur ekki á óvart. Lágt svarhlutfall er einnig á velferðarsviði eða 51%. Ef horft er til þeirra spurninga sem fengu lökustu stigin þá snúa þær að launum. Langlægstu útkomuna eða 2,93 stig fær spurningin „Telur þú vinnuveitanda þinn greiða þér betri, svipuð eða verri laun en þú gætir fengið á öðrum vinnustöðum fyrir sambærilegt starf og vinnutíma?“ Af þessu að dæma finnst mörgum sem þeir séu ekki metnir að verðleikum í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. febrúar 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti að uppbyggingarsamkomulagi og lóðarréttindum vegna lóðarinnar Dvergshöfða 27, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS23120065

    -    Kl. 10:40 víkur Þorsteinn Gunnarsson af fundinum. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 11. janúar 2024 um heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda (upptökuheimili barna) árin 1974-1979, er lagt til að borgarráð staðfesti tillögu að skipan nefndar þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofunnar. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir sömu reglum og koma fram í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nefndarmönnum er skylt að leggja fram skrá um hagsmunatengsl sín, sbr. reglur Reykjavíkurborgar um hagsmunaskráningu embættismanna. Lagt er til að nefndina skipi Trausti Fannar Valsson lögfræðingur og dósent við Háskóla Íslands sem yrði formaður, Urður Njarðvík prófessor í barnasálfræði og fyrrverandi deildarforseti sálfræðideildar Háskóla Íslands og Ellý Þorsteinsdóttir félagsráðgjafi. Nefndinni verður heimilt að ráða starfsmann og jafnframt að kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar við einstaka þætti athugunarinnar. Nefndin og starfsmaður hennar hafi aðsetur og afnot af húsakynnum Innri endurskoðunar og ráðgjafar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS24020045

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2024, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um nýtingu stafrænna kennslulausna eru send borgarráði til kynningar. MSS24010179

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur með ýmsum hætti á liðnum árum lýst áhyggjum af umfangi og flækjustigi þeirrar vinnu sem sviðið stendur frammi fyrir varðandi persónuupplýsingar í stafrænum lausnum í þágu kennslu. Ekki er betur séð af fulltrúa Flokks fólksins en að skóla- og frístundasvið hafi verið sett aftast í forgangsröð stafrænnar umbreytingarvegferðar borgarinnar bæði um kennslu- og þjónustulausnir. Nú á að setja á fót þverfaglegan hóp til að leggja mat á kennslulausnir í skólastarfi, en hvað með þjónustulausnir? Í minnisblaði í gögnum frá skóla- og frístundasviði segir m.a. að ekki verði hjá því litið að þjónustu- og nýsköpunarsvið beri ábyrgð á upplýsingatækni og gagnastjórnun Reykjavíkurborgar, ásamt nýsköpun, tæknilegum umbótum og þjónustu á þeim sviðum. Flokkur fólksins telur að Reykjavíkurborg væri á mun betri stað í þessum málum hefði þjónustu- og nýsköpunarsvið farið strax í upphafi vegferðarinnar í samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í bréfi teymisstjóra stafrænna mála hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem fylgir með gögnum kemur einmitt fram að borgin sé einangruð í stafrænni vegferð sinni og að Reykjavík og önnur sveitarfélög nái ekki að vinna nógu skilvirkt saman.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. febrúar 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. febrúar 2024 á tillögu um breytingar á tekju- og eignamörkum vegna félagslegs leiguhúsnæðis, ásamt fylgiskjölum. VEL24020009
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að hækka tekju- og eignamörk vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Fulltrúi Sósíalista telur að það þurfi að hækka þessi mörk enn frekar þannig að félagslegt leiguhúsnæði nái til fleiri, líkt og á við í öðrum borgum þar sem félagslegt leiguhúsnæði er mun almennara.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefði viljað sjá hærri tekju- og eignamörk til að eiga rétt á félagslegu húsnæði og þannig hefðu fleiri rétt á félagslegu húsnæði. Verið er að hækka tekju- og eignamörk um 8,20%. Nú mega einstaklingar ekki hafa hærri árstekjur en 7.176.000 kr. til að eiga rétt á að leigja félagslegt húsnæði. Þetta eru ekki háar tekjur og almenni leigumarkaðurinn er hræðilegur fyrir tekjulágt fólk. Stigagjöf er notuð þegar forgangsraða þarf umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði. Þessi stigagjöf er uppfærð í samræmi við hærri tekju og eignamörk. Það er auðvitað sjálfgefin aðgerð. Þess utan þá telur Fulltrúi Flokks fólksins að of fá stig séu gefin fyrir lágar tekjur.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. febrúar 2024, sbr. afgreiðslu velferðarráðs frá 7. febrúar 2024 þar sem tillögur um úthlutun almennra styrkja og þjónustusamninga til eins árs eru sendar borgarráði til kynningar og tillögur um úthlutun styrkja með þjónustusamningum til þriggja ára eru sendar borgarráði til staðfestingar. VEL24020007
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Fram fer kynning á stöðunni á Reykjanesskaga vegna eldsumbrota.

    -    Kl. 11:20 víkja borgarstjóri og Björg Magnúsdóttir af fundinum. 

    Jón Viðar Matthíasson, Þóra K. Ásgeirsdóttir, Sævar Freyr Þráinsson, Sigrún Tómasdóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir, Reynir Guðjónsson og Hera Grímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 
    Elín Smáradóttir, Sólrún Kristjánsdóttir, Alexandra Briem, Halldóra J. Hafsteinsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Dagbjartur Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23110093

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. febrúar 2024, varðandi umsögn um nýtt lyfsöluleyfi fyrir nýja lyfjabúð að Norðlingabraut 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS24020013

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. febrúar 2024, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um greiðslur til Terra, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2023. MSS23090047

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. febrúar 2024, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um lækkun og niðurfellingu fasteignagjalda, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. nóvember 2023. MSS23110172

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna ISO staðals um sjálfbærni sveitarfélaga, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024. MSS24010105

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði fram spurningu um ávinning af innleiðingu mælingar samkvæmt ISO staðli 37120 um sjálfbærni sveitarfélaga og kostnaðinn við þetta. Við val á árangursviðmiðum og mælikvörðum er nauðsynlegt að spyrja hvernig er vitað hvort við erum á réttri leið og að aðgerðir leiði til tilætlaðra jákvæðra breytinga til batnaðar. Hvernig er samráði háttað? Í svari má sjá að hér er um 14 milljóna útgjöld að ræða vegna gagnasöfnunar á samningstímanum, sem er þrjú ár, en tímabilið hófst árið 2020. 14 milljónir eru talsverð útgjöld og fyrir þá upphæð má gera margt. Ekki er að sjá í svari að þessi kostnaður þyki hár en það er rík ástæða til að horfa á slík útgjöld með gagnrýnum hætti.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samning við KLAK-Icelandic Startups, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024. MSS21120164

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samningur við KLAK-Icelandic Startups var framlengdur á vettvangi borgarráðs 11. janúar sl. Í inngangi kemur fram að tilgangurinn sé að styrkja frumkvöðlastarf á Íslandi. Spurning frá fulltrúa Flokks fólksins var hvort útsvarsgreiðendur í Reykjavík eigi að bera ábyrgð á því að styrkja frumkvöðlastarf á landsvísu. Fram kemur í svari að þótt orðalagið „styrkja frumkvöðlastarf á landsvísu“ sé notað í samkomulaginu þá nýtist styrkur Reykjavíkurborgar fyrst og fremst við stuðning á frumkvöðlaverkefnum í Reykjavík. Fram kemur einnig að þetta var réttmæt ábending hjá fulltrúa Flokks fólksins og verður orðalag uppfært ef samningar verða endurnýjaðir. Fulltrúi Flokks fólksins er glaður með það, ella gæti þetta valdið misskilningi.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um neyðaraðstoð við palestínsk börn, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. október 2023.
    Tillagan er samþykkt með þeirri breytingu að borgarráð samþykkir að styrkja neyðaraðstoð við palestínsk börn sem nemur um 150 krónum fyrir hvert reykvískt barn. MSS23100166

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skelfileg átök í Palestínu síðustu mánuði hafa haft hræðileg áhrif á saklausa borgara og bitna átökin sérstaklega á börnum. Óbreyttir borgarar eru uppiskroppa með mat, vatn, lyf og aðrar nauðsynjar. Borgarráð bókaði einróma fordæmingu á ofbeldi sem beindist gegn almennum borgurum á fundi sínum 7. desember. Í ljósi grafalvarlegrar stöðu á svæðinu samþykkir borgarráð að styðja við neyðarsöfnun Unicef fyrir börn á Gaza en samtökin standa með réttindum barna og starfa í þágu allra barna sem oft verða verst úti í stríðsátökum. Borgarráð styrkir söfnunina sem nemur 150 krónum fyrir hvert reykvískt barn á aldrinum 0-18 ára. Heildarupphæðin nemur 4,5 milljónum króna.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. janúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna um fjárhagsaðstoð borgarinnar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2023. MSS23050072

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 5. febrúar. MSS24010003

    Fylgigögn

  22. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 11. janúar og 8. febrúar. MSS24010007

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 8. febrúar: 

    Hljóðmæling hefur verið gerð sl. fimm ár þegar skautasvell hefur verið opið í aðdraganda jóla. Fjölmargar kvartanir bárust á þessum tíma og þá í tengslum við hávaða við Ingólfstorg eftir leyfilegan tíma. Nú er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um hljóðmælingar á Ingólfstorgi. Niðurstöður eru þær að „hljóðmælingar Heilbrigðiseftirlitsins hafa sýnt fram á að hljóðstig hefur almennt verið lágstemmt á svellinu utan einhverra tilvika en þá var rætt við umsjónarmenn svellsins og var hljóðstig lækkað í kjölfar þess. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leggst því ekki gegn frekari starfsemi á Ingólfstorgi. Heilbrigðiseftirlitið setur þau skilyrði að viðburðir og hátíðir sem þar verða, sérstaklega viðburðir sem standa yfir í lengri tíma, hafi lágstemmda tónlist til að lágmarka ónæði fyrir nálæga byggð.“ Fulltrúi Flokks fólksins spyr hér hvort ekkert hafi verið rætt við íbúa í nágrenninu í tengslum við þessa umsögn. Tekið er undir að starfsemi svellsins er vissulega skemmtileg en þegar verið er að skoða mál af þessu tagi ætti að hafa samráð við alla málsaðila.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 8. febrúar 2024. MSS24010008

    Fylgigögn

  24. Fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7. febrúar 2024 - framlagning - MSS24010010

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. febrúar 2024. MSS24010012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins tekur undir bókun íbúaráðs Grafarvogs þar sem gerð er athugasemd við miklar lokanir Grafarvogslaugar um nýliðin jól og áramót. Flokkur fólksins hefur mótmælt harðlega þessum lokunum og rætt skerðingar á opnunartíma sundlauga í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld til að endurskoða opnunartíma sundlauga á frídögum og stórhátíðum og hafa enn frekara samráð við sundlaugargesti og starfsfólk sundlauga. Undanfarin tvö ár hefur opnunartími sundlauga Reykjavíkurborgar verið skertur verulega og til stendur að skerða hann enn frekar. Gestir sundlauganna eru fjölbreyttur hópur, fjölskyldur, einstaklingar, fólk á öllum aldri og ferðamenn. Um 79% fullorðinna Íslendinga fara í sund og tæp 40% fara reglulega í sund allt árið. Sundlaugarnar eru þjóðargersemi okkar. Ekkert áhugamál eða tómstundagaman er jafn útbreitt og að fara í sund. Engin íþrótt eða heilsubót er jafn almenn. Um síðustu jól hafði opnunartími átta sundlauga Reykjavíkur verið styttur um 162 klukkustundir frá árinu 2021 eða úr 275 klukkustundum í 113 klukkustundir. Sundiðkun bjargar mörgum frá einmanaleika sem hrjáir svo marga í nútíma borgarsamfélagi. Ákveðinn hópur fólks hefur ekki gott aðgengi að baðaðstöðu og notar sundlaugar m.a. í þeim tilgangi.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 8. febrúar 2024. MSS24010014

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 6. febrúar 2024. MSS24010027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Sérsöfnun á matarleifum. Fram kemur að frá áramótum hefur SORPA dreift um 300.000 pokum á endurvinnslustöðvar og í Góða hirðinn. Dreifing hefur gengið vel og eftirspurn eftir pokum verið í samræmi við væntingar. Ekkert kemur fram um að fólk sé að hamstra poka. Hér má minna á tillögu Flokks fólksins um að beina því til stjórnar SORPU og þeirra sem annast sorphirðu í borginni að huga sérstaklega að eldra fólki og hreyfihömluðum, sem ekki geta nálgast poka fyrir lífrænan úrgang á endurvinnslustöðvum. Tillagan var felld af meirihlutanum með mótatkvæðum allra atkvæðabærra minnihlutafulltrúa í borgarráði. Þessi skerðing á þjónustu getur haft slæmar afleiðingar fyrir marga eldri borgara, hreyfihamlaða og þau sem ekki aka bíl eða þau sem vilja lifa bíllausum lífstíl. Fulltrúi Flokks fólksins sér fyrir sér að þau sem ekki geti nálgast pokana á SORPU fái tækifæri til að panta pokana heim til sín eða að sorphirðufólk geti afhent þeim nýja poka, t.d. á sama tíma og sorphirða á sér stað. Þetta fyrirkomulag, þ.e. að sorphirðufólk afhendi pappírspoka með reglulegu millibili, er viðhaft í öðrum löndum.

    Fylgigögn

  28. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 16. og 19. janúar 2024. MSS24010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 19. janúar: 

    Í ljósi aðstæðna vegna jarðhræringa á Reykjanesi ætlar stjórn Strætó að styðja við bakið á ungmennum frá Grindavík og samþykkti að frítt verði fyrir ungmenni 12 til 17 ára í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þessu ber vissulega að fagna. Flokkur fólksins lætur sig reyndar dreyma um þann dag þegar ákveðið verður að öll börn fái frítt í strætó en sá dagur er sennilega ekki í sjónmáli. 

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. febrúar 2024.
    2. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um áhrif á fjárfesta nú þegar flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni og er henni vísað frá. Það er sérstakt að vísa frá fyrirspurn. Óskað var upplýsinga um hvaða áhrif það er líklegt til að hafa á fjárfesta sem hyggjast byggja Nýja-Skerjafjörð nú þegar vitað er að flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni. Flokki fólksins finnst þetta mikilvægt mál því það hlýtur að breyta öllu fyrir kaupendur og auðvitað eigendur eigna þarna í kring hvort þeir eigi eftir að þurfa að búa ofan í flugvelli til framtíðar. Nú liggur fyrir að Reykjavíkurflugvöllur mun verða áfram á sínum stað næstu áratugi samkvæmt orðum innviðaráðherra. Vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er mikil óvissa um hvort Hvassahraun verði nokkurn tíma örugg staðsetning fyrir nýjan flugvöll. Fulltrúa Flokks fólksins fannst það aldrei góð hugmynd að skipuleggja nýja byggð þarna ofan í flugvellinum þegar það var fullkomlega óljóst hvort flugvöllurinn færi nokkurn tímann úr Vatnsmýrinni.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls tíu mál. MSS24010231

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í tillögu Sjálfstæðismanna er skýrt ákall til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að afhenda borgarráði skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar varðandi úttekt á stjórnarháttum og miðlun upplýsinga og samstæðu og í kjölfarið verði trúnaði aflétt. Að afgreiða tillöguna svo að hluteigendum sé falið að veita umsögn um afléttingu trúnaðar á alvarlegum ábendingum um eigin störf er óviðeigandi enda eru viðkomandi aðilar varla hæfir til að veita umsögn um skýrslu sem varðar þá sjálfa. Í áliti umboðsmanns Alþingis, dags. 12. apríl 2021, er áréttað að þegar sveitarstjórn berast upplýsingar um hugsanlega annmarka á stjórnsýsluframkvæmd sveitarfélags, þar með talið í reglubundnu eftirliti á stjórnarháttum stofnunar eða fyrirtækis á þeirra vegum, getur sveitarstjórn verið skylt að taka málefnið til nánari athugunar, svo sem með því að afla frekari upplýsinga eða skýringa um það frá hlutaðeigandi starfsmanni eða stofnun sveitarfélags. Jafnframt er sérstaklega fram tekið í sameignarsamningi um Orkuveitu Reykjavíkur að sveitarstjórnarfólk og almenningur eiga ríkan rétt til upplýsinga um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skora á borgarráð að endurskoða afgreiðslu tillögunnar í þessu samhengi og láta ekki tefla sér í tafarleiki.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24010230

    Fylgigögn

  32. Lagt fram erindi óbyggðanefndar, dags. 12. febrúar 2024, varðandi kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist eyjar og sker. MSS24020070
    Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Borgarráð samþykkir að veita aukin fjárframlög úr borgarsjóði með þeim börnum sem lögheimili eiga í Reykjavík og sækja nám í sjálfstætt starfandi leikskólum eða grunnskólum í borginni. Markmiðið verði að treysta rekstrargrundvöll skólanna, þannig að sjálfstætt starfandi grunnskólar þurfi ekki að innheimta skjólagjöld og sjálfstætt starfandi leikskólar þurfi ekki að notast við hærri gjaldskrár fyrir nemendur búsetta í Reykjavík. Þannig verði efnahagur foreldra ekki ákvarðandi ástæða við skólaval. Skóla- og frístundasviði verði falið útfæra viðeigandi reiknilíkan vegna breyttra framlaga. Breytingar verði gerðar á samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla og grunnskóla, og breytingarnar taki gildi frá og með 1. ágúst 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24020084
    Frestað.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til borgarráð samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði í samstarfi við skóla- og frístundasvið að vinna tillögu að fyrirkomulagi sem gerir Reykjavíkurborg kleift að bjóða nemendum sem hafa til þess aldur, vinnu hjá leikskólum Reykjavíkur á þeim tímum og dögum sem þeim hentar og sem fellur vel að námskrá þeirra. Miða skal við að unnt verði að gera skammtímasamninga við nemana allt niður í tvo mánuði.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24020085
    Frestað.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hvers vegna notast Reykjavíkurborg við Workplace frá Meta þrátt fyrir að Office 365 innihaldi sambærilega virkni í gegnum Viva Engage? Hvers vegna notast skóla- og frístundasvið við Google Workspace í stað annarra sambærilegra lausna? Hvers vegna notast Reykjavíkurborg við Webex fjarfundarlausnir í stað sambærilegra lausna í gegnum Office 365? Hver er kostnaðurinn við Torgið og hvers vegna var ákveðið að notast við þá lausn í stað sambærilegrar lausnar í gegnum Office 365?

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni. MSS24020087

    Fylgigögn

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um hversu margar fartölvur þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur keypt á undanförnum tveimur árum. Af hvaða tegund eða tegundum eru tölvurnar, hversu margar þeirra eru komnar í notkun og hversu margar eru enn ekki komnar í notkun?

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni. MSS24020088

    Fylgigögn

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda starfa sem hafa verið lögð niður á þjónustu- og nýsköpunarsviði að undanförnu og hvort og þá hvernig aðstoð hinir brottreknu starfsmenn af sviðinu eru að fá. Einnig er óskað upplýsinga um hvernig er unnið með andrúmsloftið á sviðinu í kjölfar svo umfangsmikilla starfsmannabreytinga. Hefur einhverjum starfsmönnum á sviðinu verið sagt upp á meðan viðkomandi var í veikindaleyfi? Hefur trúnaðarmanni tölvunarfræðinga verið sagt upp? MSS24020089

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hvaða þjónusta hefur verið keypt í gegnum DPS þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Óskað er upplýsinga um innkaup sviðsins brotið niður á ár og ársfjórðung á gildistíma þeirra samninga sem gerðir hafa verið við þjónustu- og nýsköpunarsvið í gegnum DPS (gagnvirkt innkaupakerfi), heiti verkefnis, nafn seljanda, upphaflega kostnaðaráætlun, upphæð heildarinnkaupa og hvort þau hafi verið borin undir innkauparáð til samþykktar. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvaða verkefni eru í gangi sem ekki fóru í gegnum formlegt innkaupaferli. Fór það í gegnum formlegt innkaupaferli þegar KPMG var fengið til að vinna gjaldskrá fyrir sviðið? Hvernig er gjaldskrá sviðsins í samanburði við sambærilegar gjaldskrár hjá hinu opinbera? Hvernig eru þau verkefni fjármögnuð? Óskað er upplýsinga um ákvörðun á fjármögnunarleiðum þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Hver ber ábyrgð á langtíma hagkvæmni slíkra ákvarðana? Óskað er upplýsinga um hvort önnur svið borgarinnar þurfa að bera aukna fjárhagslega byrði vegna þessara ákvarðana. MSS24020090

    -    Kl. 12:10 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.
    -    Kl. 12:13 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.

Fundi slitið kl. 12:15

Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 15.02.2024 - Prentvæn útgáfa