Nýjar reglur sem stuðla að aukinni samvinnu við notendur taka gildi
Í dag taka gildi nýjar reglur Reykjavíkurborgar sem meðal annars fela í sér aukna samvinnu um þann stuðning sem veittur er. Með tilkomu reglnanna er lögð aukin áhersla á stafrænar lausnir og að einfalda alla umsýslu mála.
Annars vegar er um að ræða nýjar reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu. Með tilkomu nýju reglnanna falla eldri reglur um félagslega heimaþjónustu úr gildi og þjónustan verður kölluð heimastuðningur.
Heimastuðningur byggist fyrst og fremst á þeim markmiðum sem notandi setur sér sjálfur til að ráða við daglegt líf. Áhersla er á hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsi. Stuðningur við heimilishald og athafnir daglegs lífs er veittur með leiðbeiningum, þjálfun og eftirliti. Þetta er gert til þess að gera fólki kleift að búa heima, bjarga sér sjálft og vera félagslega virkt. Áhersla er lögð á að einfalda alla umsýslu og nú er hægt að sækja um heimastuðning rafrænt á vef Reykjavíkurborgar.
Lestu meira um heimastuðning hér og skoðaðu reglurnar hér.
Stoð- og stuðningsþjónusta við fatlað fólk
Hins vegar taka gildi í dag reglur um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk. Í þeim er aukin áhersla lögð á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og viðeigandi aðlögun fyrir hvern og einn. Áherslan er á sveigjanleika og samhæfingu stuðnings með annarri þjónustu. Stuðningsþörf verður ekki lengur metin á grundvelli stiga, sem ákvarða fjölda klukkustunda sem viðkomandi hefur rétt á að fá, heldur ákvörðuð í samtali umsækjanda og ráðgjafa. Þessi nálgun er talin geta mætt stuðningsþörfum umsækjenda betur og skapað meiri sveigjanleika. Þá er einnig lögð áhersla á öfluga ráðgjöf. Jafnframt er öll umsýsla einfölduð varðandi bæði nýjar umsóknir og samþykktar umsóknir með stafrænum lausnum.
Lestu meira um stoð- og stuðningsþjónustu hér og hér eru nýju reglurnar.
Reglurnar eru í samræmi við velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem miðar meðal annars að því að því að þjónusta skuli vera einstaklingsmiðuð og heildstæð.
Nýjar reglur um beingreiðslusamninga
Í dag taka einnig í gildi reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Beingreiðslusamningar fela í sér að notandi gerir samning við Reykjavíkuborg um að stjórna þeirri aðstoð sem hann fær. Hann skipuleggur aðstoðina, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Markmiðið með beingreiðslusamningum er að auka val einstaklinga um þjónustuform og fyrirkomulag aðstoðar.
Lestu meira um beingreiðslu samninga hér og hér eru nýju reglurnar.
Allar reglurnar eru gerðar með hliðsjón af þeim breytingum sem urðu með gildistöku laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 þann 1. október 2018.