Ný gjaldskrá afnotaleyfa og eftirlits hjá Reykjavíkurborg hefur tekið gildi. Henni er skipt upp í fimm flokka eftir umfangi afnota og hvort um sé að ræða afnot vegna notkunar á borgarlandi svo sem viðburða eða aðstöðusköpunar eða vegna rofs á yfirborði. Borgarland er samheiti yfir allt það landsvæði sem tilheyrir Reykjavíkurborg hvort sem um er að ræða götur, gangstéttir, stíga eða opin svæði.
Minni athafnir og viðburðir nú án gjalds
Hver umfangsflokkur felur í sér ákveðna verkþætti, annars vega vegna útgáfu afnotaleyfa og hins vegar vegna eftirlits. Fjöldi vinnustunda er metinn í hverjum verkþætti og tekið er mið af tímagjaldi ráðgjafa á almennum markaði.
Afnotunum er skipt niður eftir umfangi, í minniháttar og meiriháttar aðstöðusköpun og viðburði og minniháttar og meiriháttar framkvæmdir og fer verðlagningin eftir því. Verðbilið er breiðara en áður og endurspeglar vinnuna sem liggur að baki. Umfangsflokkur 1 sem tekur á minniháttar aðstöðusköpun er verðlagður á 38.600 krónur en fyrir meiriháttar framkvæmdir í umfangsflokki 4 þarf að greiða 772.000 krónur.
Þess skal sérstaklega getið að umfangsflokkur 5 sem fjallar um minni athafnir og viðburði á borgarlandi er gjaldfrjáls. Í öðrum flokkum er til viðbótar greitt 14.900 króna umsýslugjald.
Hvati til að draga úr afnotatíma
Markmið afnotaleyfa er að veita tímabundið leyfi til að nota borgarlandið til fjölbreyttra afnota til dæmis vegna rofs á yfirborði eða viðburða. Til að leggja áherslu á þetta markmið verður hvert leyfi gefið út að hámarki til eins árs í senn. Þetta þýðir að ef afnot vara lengur en eitt ár mun nýtt gjald verða sett á viðkomandi afnot.
Þetta er gert til að takmarka eins og mögulegt er þann tíma sem viðkomandi afnot muni vara og þannig móta hagrænan hvata í gjaldskrána til að draga úr afnotatíma. Það er mikilvægt þar sem framkvæmdir á viðkvæmum svæðum eins og til dæmis í miðborginni hafa oftast mikið rask í för með sér fyrir alla vegfarendur.
Tilgangurinn með útgáfu afnotaleyfa
Tilgangi við útgáfu afnotaleyfa og eftirliti má skipta í fjóra þætti:
- Að tryggja öryggi allra vegfaraenda.
- Að stýra umferðarflæði vegna afnota þannig að vegfarendur komist leiða sinna með sem minnstri truflun og að hin ýmsu afnot séu ekki að skarast.
- Að tryggja upplýsingaskyldu til íbúa og gesta sveitarfélagsins um afnotin í borgarlandinu þannig að hægt sé að gefa upplýsingar, í sem næst rauntíma, um hvað sé í gangi, hvað er verið að framkvæma og af hverju á hverjum tíma.
- Að viðhalda verðmæti borgarlandsins þannig að ekki séu ótímabær afföll á eigum borgarinnar vegna afnota sem rýrt geta verðgildi yfirborðs og undirlags.
Um 1.500 afnotaleyfi útgefin á hverju ári
Á ársgrundvelli eru í dag gefin út um 1.500 afnotaleyfi og þörfin er vaxandi. Því samhliða fer fjöldi ábendinga, eftirlits og eftirlitsferða einnig vaxandi. Eldri gjaldskrá stóð ekki undir raunkostnaði vegna starfsemi og nauðsynlegu utanumhaldi vegna málaflokksins.