Mokum frá tunnunum til að tryggja losun fyrir jól

Sorphirða

Starfsfólk sorphirðunnar neyðist til þess að skilja tunnurnar eftir ef það kemst ekki að þeim til að losa. Óvíst er hvort það náist að tæma þær tunnur sem skildar eru eftir fyrir jól.
Starfsfólk sorphirðu að draga tunnu yfir snjóruðning

Sorphirða Reykjavíkurborgar vill vinsamlegast minna íbúa á að moka frá sorptunnum sínum og tryggja að gönguleiðir séu greiðar að þeim til að starfsfólk komist að til að tæma. Einnig er mikilvægt að sjá til þess að bílar og annað hindri ekki aðgengi að sorpgerðum. Starfsfólk sorphirðunnar neyðist til þess að skilja tunnurnar eftir ef það kemst ekki að þeim til að losa. Óvíst er hvort það náist að tæma þær tunnur sem skildar eru eftir fyrir jól.

Sorphirðan er að störfum í Breiðholti í dag og á morgun og eftir það verður farið í Árbæ og Grafarvog. Unnið er klukkutíma lengur á dag til að reyna að losa allt fyrir jólin en aðfangadagur er næstkomandi laugardag.

Nýtum grenndarstöðvar og hugum að nærumhverfinu

Enn fremur viljum við minna íbúa á að flokka vel og nýta grenndar- og endurvinnslustöðvar ef endurvinnsluefnið rúmast ekki í tunnunum. Það er frost í kortunum næstu daga og fólk er hvatt til að huga að sínu nærumhverfi almennt, það er moka tröppur, huga að gönguleiðum og þess háttar. Hægt er að fá salt og sand til hálkuvarna hjá Reykjavíkurborg.