Nemendur Vinnuskóla Reykjavíkur hafa lokið störfum þetta sumarið. Þátttakan var mjög góð en alls störfuðu 3.387 unglingar í skólanum í sumar, 55 leiðbeinendur og 18 aðstoðarleiðbeinendur.
Allir hóparnir störfuðu af miklum metnaði við að fegra hverfin sín og eiga þau mikið hrós og þakkir skilið.
Margvíslegar nýjungar voru teknar upp í starfsemi Vinnuskólans að þessu sinni.
Helst ber að nefna nýtt skráningarkerfi, aðkomu unglinganna að undirbúningi verkefna og samkeppni um fegrun svæða. Eins voru gerðar töluverðar breytingar á fræðslu til nemenda. Fræðslan var að öllu leyti starfstengd og áhersla lögð á að kenna nemendum gagnlega þætti sem snúa að framtíðarþátttöku þeirra í atvinnulífinu.
Nemendur voru meðal annars fræddir um yfirferð launaseðla, um réttindi og skyldur starfsfólks, hvernig ferilskrá er gerð og hvað þurfi að hafa í huga við undirbúning fyrir atvinnuviðtöl.
Stolt af vel heppnuðu starfi
Við erum afar stolt og hreykin af öllum unglingunum sem störfuðu hjá Vinnuskólanum í sumar og þökkum þeim og öllu okkar góða samstarfsfólki fyrir lærdómsríkt og gott sumar.
- Kíkt í heimsókn í Vinnuskólann
- Gott að vinna í Vinnuskólanum
- Vinnuskólinn á facebook
- Vinnuskólinn heimasíða