Loftgæði í Reykjavík eru vel vöktuð

Heilbrigðiseftirlit

Loftgæði

Á málþingi fyrir borgarbúa um loftgæði í borginni ræddu sérfræðingar um áhrif loftmengunar og um aðgerðir til að draga úr henni í borginni. Málþingið var haldið fyrir tilstuðlan umhverfis- og skipulagsráðs og heilbrigðisefndar Reykjavíkur í Ráðhúsi Reykjavíkur miðvikudaginn 15. maí og var mjög upplýsandi. Ástæður loftmengunar voru greindar og hvað þurfi að gera til að draga úr uppsprettu hennar. 

Fjallað var um ýmsar aðgerðir sem mögulegar eru til að draga úr loftmengun og hverjar þeirra væri fýsilegt að nota í Reykjavík. Sagt var frá vinnu stýrihóps við að marka stefnu í málaflokknum. Í viðleitni til að tryggja lýðræðisþátttöku borgarbúa um málefnið, er málefnið sett inn á samráðsgátt Reykjavíkurborgar en þar er leitað eftir góðum tillögum til að bæta loftgæði í Reykjavík. Fundurinn er ekki sendur út í streymi en var tekinn upp og verður upptakan birt hér þegar hún berst.

Góð loftgæði í Reykjavík á evrópska vísu

Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs var fundarstjóri og Aðalsteinn Haukur Sverrisson formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur flutti ávarp. Loftgæði í Reykjavík eru í heild góð og í borgin trjónir oft í efsta sæti í Evrópu í þeim flokki. 

Dagskrá og erindi: 

 
Svava S. Steinarsdóttir sagði að besta leiðin til að draga úr mengun er að koma í veg fyrir að hún myndist. 
Helstu loftmengandi efni í Reykjavík og uppspretta þeirra er:
 
  • Svifryk (PM10 og minna) er uppspænt malbik, sót aðallega frá díselbruna, jarðvegsagnir, salt, aska, örplast o.fl.
  • Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) –kemur frá umferð og höfnum
  • Brennisteinsvetni (H2S) –jarðhitavirkjanir –Nesjavalla -og Hellisheiðarvirkjun
  • Brennisteinsdíoxíð (SO2). Aðallega frá iðnaði, bílaumferð, skipaumferð og frá eldgosum
 
Viðbragðsteymi um loftgæði metur aðstæður og grípur til aðgerða ef þarf og sendir út tilkynningar til borgarbúa, skóla, leikskóla, dagmæðra og íþróttafélaga ef loftgæði eru slæm eða líkur á að þau verði það. 

Aðgerðir sem unnt er að framkvæma með stuttum fyrirvara, dæmi:

  • Fjarvinna eða koma til vinnu með vistvænum fararmátum þá daga sem loftmengun er yfir mörkum eða stefnir í að það.
  • Setja skilyrði í öll framkvæmdaleyfi fyrir stærri framkvæmdir um dekkjaþvott og vökvun á þurru yfirborði á framkvæmdasvæðum.
  • Aukin og bætt þrif á götum til dæmis með vegsóp með öflugum ryksugubúnaði.
  • Aukið átak gegn notkun nagladekkja í borginni.

Þorsteinn Jóhannsson sagði að það væri beint og mjög sterkt samband milli svifryks, slits á götum og nagladekkjanotkun. Þröstur Þorsteinsson ræddi um hvaða áhrif mengun hefur á heilsu. Mengun vegna umferðar veldur aukningu í sjúkdómum og dánartíðni af völdum hjarta-og æðasjúkdóma og lungnakrabbameins, og einnig sykursýki, taugaskemmdum og áhrifum á fóstur. Hrund Ólöf Andradóttir beindi athyglinni að sóti (black carbon) sem eru sá hluti svifryks sem talinn er hættulegastur heilsu, en þetta eru örfínar agnir sem geta ferðast djúpt í lungun.