Hverfisgata lokar við Rauðarárstíg

Framkvæmdir Samgöngur

Gasstöðin

Hverfisgata lokuð frá Snorrabraut að Laugavegi

Verktakinn Alma verk hyggst loka Hverfisgötu við Rauðarárstíg í byrjun næstu viku eða frá Lögreglustöðinni við Hlemm að Laugavegi. Byrjað verður að loka á mánudaginn og svo klárað á þriðjudaginn.

Við þessa aðgerð lokast götuspottinn við Hverfisgötu 113-125 ásamt bílastæðum og einnig fyrir framan Lögreglustöðina Hlemmmegin. Bríetartún verður áfram lokað á sama hátt.

  • Verkefnið er hluti af endurgerð Hlemmsvæðis þar sem skapa á ramma um fjölbreytt mannlíf á torginu, skjól og spennandi dvalarsvæði.

Almennt um verkefnið

Framkvæmdir hafa gengið vel á Rauðarárstíg frá Bríetartúni en götulagnir eru endurnýjaðar þar. Núverandi fráveitulögn verður endurnýjuð með tvöföldu kerfi regnvatns- og skolps. Fyrirliggjandi heimæðar og niðurföll verða tengd nýja kerfinu auk nýrra svelgja í regnbeðum. Hluti hitaveitulagna í götustæði verða endurnýjaðar.

Gatnamót við Bríetartún verða upphækkuð og akstursrými afmarkað með lágum tveggja og fjögurra sentímetra háum kantsteini. Hönnun götu verður í einum fleti og akstursrýmið hellulagt. Rafhleðslustæði og sleppistæði fyrir leigubíla verða nyrst í götunni. Lokað var fyrir Rauðarárstíg frá Bríetartúni við upphaf framkvæmda og síðan unnið markvisst út að Hverfisgötu.

Hver er staðan?

Framkvæmdin hefur gengið vel og er jarðvinna vegna fráveitu og lagning stofnlagna fráveitu í Rauðarárstíg langt á veg kominn. Fleygun á klöpp er einnig komin langt á veg. Á næstu vikum verður áframhaldandi jarðvinna og lagning fráveitu og ásamt því er stefnt að lagningu vatnsveitu undir lok mánaðarins. Í Bríetartúni er búið að setja niður fráveitubrunna fyrir stofnlagnir og heldur lagning fráveitulagna áfram í Bríetartúni samhliða Rauðarárstíg.

Eldri fréttir:

13. júlí: Framkvæmdir hafnar

13. maí: Framkvæmdir á Rauðarárstíg