Hlutfall nagladekkja óx í vetur

Samgöngur

""

Niðurstöður á talningu á hlutfalli nagladekkja í Reykjavík var kynnt í skipulags- og samgönguráði 20. maí og kom fram að hlutfallið óx.

Hlutfall negldra dekkja er töluvert hærra í ár en í fyrra og síðastliðin ár, eins og sjá má á meðaltalsdreifing á notkun negldra og ónegldra hjólbarða í Reykjavík síðastliðin 5 ár sem EFLA hefur gert. Hlutfall negldra dekkja var talið fimmtudaginn 16. apríl. 

Hlutfallið skiptist þannig að 40% ökutækja reyndust vera á negldum dekkjum og 60% á ónegldum. Hlutfall negldra dekkja er nánast það sama og í síðustu talningu, 3. mars 2020 en þá var það 41%.

Í fyrra voru ökumenn fljótir að skipta um dekk en þá var einnig talið um miðjan apríl og var hlutfall þeirra ökutækja sem voru á negldum dekkjum töluvert minna, eða 31%. Fyrir tveimur árum var hlutfallið enn lægra eða 22%. Skýringarnar á því hversu hægt gekk núna að skipta er að leita í COVID 19 en sömu sóttvarnarreglur gilda á dekkjaverkstæðum eins og annars staðar. 

Talningarstaðir voru Mjóddin, Kringlan, Miðbærinn við Höfnina, Háskóli Íslands við Háskólabíói. Talið er sex sinnum á ári.

Hvað er svifryk?

Svifryksmengun er ein af helstu ástæðum heilbrigðisvandans sem rekja má til mengunar í borgum. Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin. Stór hluti eða yfir 80% af svifrykinu í Reykjavík stafar af bílaumferð.

Uppruni svifryks: Rannsókn EFLA, 2017

Malbik 48,9%
sót 31,2%
jarðvegur 7,7%
bremsur 1,6%
salt 3,9%

Niðurstöðurnar styðja eindregið þann grun að vægi sóts í svifryki hefur vaxið mjög á síðustu árum sem má sennilega rekja til mikillar aukningar bílaumferðar og hækkandi hlutfalls díselbíla. 

Bílaleigubílar á nöglum

Ástæður þess að hlutfall nagladekkja hefur vaxið eru örugglega nokkrar. Ein líkleg ástæða er að bílaleigur afhenda bíla að vetri til á nöglum og túristum sem leigja bifreið hefur fjölgað á undanförnum árum.

Gallup gerði könnun árið 2016 fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar um ástæður fyrir notkun nagladekkja. Þar kom fram að eigendur tæplega 27% þeirra bíla sem eru á nagladekkjum gáfu upp ferðalög út á land og yfir fjallvegi að vetri til. Eigendur naumlega 23% bíla á nagladekkjum nefndu öryggi og eigendur rúmlega 10% bíla á nagladekkjum sögðu að nagladekkin hefðu fylgt bílnum eða að þeir hefðu átt þau fyrir. Aðrir ástæður voru t.d. hálka, búseta, vani og traust. Spurt var fyrir hvern og einn bíl á heimilinu.

Tilmæli um góð vetrardekk

Reykjavíkurborg hefur hvatt íbúa til að fjárfesta fremur í góðum vetrardekkjum heldur en nagladekkjum því það malbik sem naglarnir rífa upp er ein helsta uppspretta svifryksmengunar á höfuðborgarsvæðinu. Borgin hefur ítrekað óskað eftir heimild til gjaldtöku vegna nagladekkja og gæti það verið sterkt tæki. Það hefur ekki fengist. 

Loftgæði: Hægt er að fylgjast með loftmengun í Reykjavík hér: Loftgæði.

Tengill

Kynning á talningum á hlutfalli