Loftgæði í Reykjavík

Teiknuð mynd af tré að hausti til.

Heilnæmt andrúmsloft er mikilvæg auðlind og undirstaða góðrar heilsu og velferðar. Áhrif mengaðs andrúmslofts á heilsu koma sífellt betur í ljós og eru ákveðnir hópar taldir viðkvæmari fyrir loftmengun. Þessir hópar eru meðal annars börn, einstaklingar með astma, lungna- og/eða hjarta- og æðasjúkdóma.

Loftgæðamælistöðvar

Hægt er að fylgjast með loftgæðum í loftgæðamælistöðvum Umhverfisstofnunar á Grensásvegi og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og tveimur stöðvum Heilbrigðisefirlits Reykjavíkur á loftgæði.is. Önnur loftgæðafarstöð Heilbrigðiseftirlitsins er nú við gatnamótin Bústaðavegur/Háaleitisbraut en hin er staðsett við Vesturbæjarlaug. Heilbrigðiseftirlitið fylgist með mæliniðurstöðum og gefur út tilkynningar ef þurfa þykir.

Almennt um loftgæði

Frá árinu 1990 hefur Reykjavíkurborg vaktað loftgæði. Fimm loftgæðamælistöðvar eru staðsettar í borginni: tvær fastar stöðvar á vegum Umhverfisstofnunar sem eru staðsettar á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum (FHG), tvær færanlegar loftgæðamælistöðvar á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og svo tvær stöðvar á vegum Orku náttúrunnar sem eru staðsettar í Norðlingaholti og Lambhaga. Færanlegar mælistöðvar heilbrigðiseftirlitsins eru fluttar á milli áhugaverða staða til mælinga á loftgæðum. Breytilegt er milli stöðva hvaða efni eru mæld en með því að smella á hverja mælistöð má sjá hvaða efni er verið að mæla á þeim stað. 

Hérlendis er tekið mið af þremur reglugerðum um mengun andrúmsloftsins, sem í má finna þau viðmiðunar- og heilsuverndarmörk sem talið er æskilegt að mengun fari ekki upp fyrir.  Reglugerðir þessar byggja á þeim tilskipunum sem Evrópusambandið hefur sett og eiga þau að tryggja góð loftgæði fyrir almenning.

Almenningur getur fylgst með niðurstöðum mælinga sem staðsettar eru í Reykjavík á loftgæði.is.

Viðmiðunar og heilsuverndarmörk

Loftgæði í Reykjavík eru almennt góð en köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og svifryk (PM10) eru þau efni sem líklegust eru til að fara yfir heilsuverndarmörk. Önnur loftmengandi efni sem mæld eru í borginni eru m.a. brennisteinsvetni (H2S), kolmónoxíð (CO), brennisteinsdíoxíð (SO2) og benzene (C6H6) en mælast yfirleitt langt undir viðmiðunarmörkum í Reykjavík.

Viðbragðsáætlun um loftgæði

Í Reykjavík er starfandi viðbragðsteymi, samkvæmt viðbragðsáætlun fyrir loftgæði sem meðal annars sendir út tilkynningar ef loftgæði eru líkleg til að fara yfir heilsuverndarmörk og ákveður til hvaða mótvægisaðgerða er gripið til. Í mars 2009 samþykkti Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur viðbragðsáætlun um loftgæði, skv. reglugerð um loftgæði nr. 787/1999, fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi. Viðbragðsáætlunin tekur til skammtímaaðgerða til að koma í veg fyrir að farið sé yfir heilsuverndarmörk, hvað varðar loftmengun vegna mismunandi mengunaruppsprettna. Í áætluninni er fjallað um öll helstu mengunarefni í andrúmslofti út frá þekktum uppsprettum og til hvaða aðgerða er hægt að grípa. Viðbragðsáætlunin var síðast uppfærð árið 2020.

Í tengslum við viðbragðsáætlunina er starfandi viðbragðsteymi sem metur hvort senda eigi út viðvaranir til almennings um að loftgæði séu líkleg til að fara yfir heilsuverndarmörk eða séu þegar yfir mörkum og spáir fram í tímann um loftgæði. Viðbragðsteymið ákveður einnig hvort fara eigi út í mótvægisaðgerðir á hverjum tíma og þá hverjar. Í viðbragðsteyminu eru aðilar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar og skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands. Einnig er í teyminu fulltrúi frá Vegagerð ríkisins.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

Hægt er að senda fyrirspurnir, ábendingar og kvartanir í gegnum form á Mínum síðum.