Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk í uppbyggingu | Reykjavíkurborg

Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk í uppbyggingu

föstudagur, 2. nóvember 2018

Húsfyllir var á fundi um uppbyggingu ódýrs húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Hér er hægt að nálgast allar kynningarnar.

 • Kynning á hagkvæmu húsnæði.
  Fjölmenni var á fundi um ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur þar sem níu aðilar fóru yfir frumhugmyndir sínar að slíku húsnæði á lóðum sem borgin úthlutar fyrir það.
 • Fulltrúar Þorpsins Vistfélags sem hyggst byggja upp í Gufunesi vistvæna byggð.
  Fulltrúar Þorpsins Vistfélags sem hyggst byggja upp í Gufunesi vistvæna byggð. Frá vinstri Runólfur Ágústsson, Sólveig Berg og Oddur Ástráðsson.
 • Vistvæn byggð í Gufunesi. Tölvuteiknuð mynd.
  Svona sér Þorpið vistfélag sér að vistvæn byggð í Gufunesi geti litið út með deilibílum, útisvæðum og jafnvel hænsnakofum.
 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir verkefnið.
  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir verkefnið og kvaðst vonast til að uppbygging yfir 500 íbúða gengi hratt og vel fyrir sig.

Á fundinum fór Dagur B. Eggertsson yfir tilurð verkefnisins sem er burðarás í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem var samþykkt árið 2017. Borgin mun leggja til lóðir á völdum stöðum í borginni undir hagkvæmt húsnæði sem samstarfsaðilar munu þróa og byggja upp a samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Lóðirnar verða seldar á föstu verði sem hefur verið ákveðið 45 þúsund krónur á hvern fermetra ofanjarðar.

Samstarfsaðilarnir komu síðan einn af öðrum og kynntu hugmyndir sínar með glærum. Í stuttu máli stendur til að byggja 500 íbúðir eða fleiri á lóðunum ef samningar nást við samstarfsaðilana.

Reitirnir sem um ræðir eru í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog, við Sjómannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði. Deiliskipulag þessara svæða er mislangt á veg komið.

Rík áhersla er lögð á að framkvæmdir hefjist sem fyrst og gangi hratt fyrir sig.

Fundurinn hófst með léttum morgunverði kl. 8:30 en síðan hóf Dagur B. Eggertsson borgarstjóri erindi sitt kl. 9. Hann fór yfir tímalínu verkefnisins og sagði að um væri að ræða merkilega tilraun og brautryðjendastarf í húsnæðismálum. Verkefnið væri mikilvægur þáttur í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Dagur sagði m.a. að með þessu verkefni væri Reykjavíkurborg að nota afl sitt sem landeigandi til að koma fram félagslegum áherslum í húsnæðismálum. Hann sagðist ennfremur vona að verkefnið gengi hratt og vel fyrir sig.

Fundarstjóri var Óli Örn Eiríksson verkefnisstjóri á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar sem hefur leitt starfshóp um verkefnið.

Kynning Dags B. Eggertssonar borgarstjóra

Hoffell Gufunes

Urðarsel Úlfarsárdalur

Vaxtarhús Sjómannaskólareitur

Variat Bryggjuhverfi

Abakus Bryggjuhverfi

Þorpið Vistfélag Gufunes

Heimavellir Veðurstofureitur

Hoos Skerjafjörður

Modulus Kjalarnes