Fjölgun íbúða í borginni

Hvar er verið að byggja í borginni?

Árviss kynningarfundur borgarstjóra um uppbyggingu íbúða í borginni verður haldinn á föstudag og þar verður farið í máli og myndum yfir hvar verið er að byggja og hver séu framtíðarbyggingarsvæðin. Fundurinn verður að þessu sinni í Sjálfstæðissalnum á Hótel Parliament, Thorvaldsenstræti 2, og hefst hefst kl. 9 á föstudagsmorgun.  Dagskrá má sjá á reykjavik.is/ibudir

Samstarf ríkis og borgar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun fara yfir áherslur Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum, auk þess að gefa yfirsýn um uppbyggingu íbúða.  Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra mun fjalla um húsnæðissáttmála ríkis og borgar, en í upphafi ársins varð Reykjavíkurborg fyrst sveitarfélaga til að undirrita samkomulag við ríkið.

Hvernig gengur að byggja íbúðir?

Þegar staðan var tekin á húsnæðisuppbygginu þann 1. október sl. var hún þessi:

  • 2.810 íbúðir voru í byggingu,
  • 2.565 íbúðir voru á byggingarhæfum lóðum,
  • 2.884 íbúðir voru samþykktar í deiliskipulagi,
  • 9.400 íbúðir í skipulagsferli
  • og á skilgreindum þróunarsvæðum var svo gert ráð fyrir 5.230 íbúðum.

Borgin leggur áherslu á að skapa skilyrði til að á hverjum tíma séu nægilega margar lóðir byggingarhæfar og hún getur einkum haft áhrif á fyrri stigum skipulagsferilsins, en á síðari stigum eru það einkum lóðarhafar sem ráða hraða uppbyggingarinnar.

Í Kortasjá er hægt að sjá nýrri tölur um stöðu mála niður á hverja lóð eða uppbyggingarreit. Skoða husnaedisuppbygging.reykjavik.is/

Eigum við að búa saman?

Auk þess að fara vel yfir framboð íbúða fá ólík búsetuform einnig athygli.  Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta segir frá áherslum í búsetu stúdenta, en þar er meðal annars lögð áhersla á að vinna gegn einangrun í búsetu með félagslegum lausnum. Heiti erindis hennar er Eigum við að búa saman?

Verkalýðshreyfingin er lykilsamstarfsaðili borgarinnar og kemur hún að beinum hætti að uppbyggingarverkefnum í gegnum Bjarg íbúðafélag sem ASÍ og BSRB standa að. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs mun segja frá  uppbyggingu leiguhúsnæðis og áherslum félagsins.

Búseti fagnar 40 ára starfsafmæli um þessar mundir. „Húsnæðismarkaðurinn var í algjöru uppnámi á þessum tíma og það varð að breyta einhverju,” rifjaði Páll Gunnlaugsson, arkitekt og einn af stofnendum félagsins upp í viðtali nýverið. Gömul saga og ný, sem við fáum innsýn í á kynningarfundinum.

Stór og vistvæn uppbyggingarverkefni

Umhverfisvænar áherslur í stærri uppbyggingarverkefnum verða sérstaklega dregin fram á fundinum, því að á sama tíma og stefnt er að metuppbyggingu húsnæðis er rétt að huga að losun gróðurhúsalofttegunda af völdum mannvirkjageirans.

Uppbygging á Veðurstofuhæð er í kortunum og hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á að þar verði græn og visthæf byggð. Við fáum að heyra sjónarmið hönnuða og undirbúningsteymis. Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar leiðir þá kynningu úr hlaði.

Ártúnshöfði er stærsta þróunarsvæði borgarinnar og nú er bygging fyrstu íbúða þar hafin.  Ríkey Huld Magnúsdóttir, verkefnisstjóri fyrir Ártúnshöfða, ætlar að kynna okkur hvernig staðið verður að uppbyggingunni og hverjar áherslur Reykjavíkur eru.

Framkvæmdir eru hafnar við umhverfisvottaða íbúðabyggð á Orkureitnum og verða fyrstu íbúðir tilbúnar til afhendingar á næsta ári. Hilmar Ágústsson framkvæmdastjóri Safír segir frá, en Orkureiturinn er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða skipulagið á íbúðarbyggð í Reykjavík.”

Tengt efni: