Fjögur stór athafnasvæði í þróun
„Þegar við skoðum heildarmyndina gagnvart atvinnulóðum í borginni þá er þrennt sem einkennir. Í fyrsta lagi þá eru fáar risalóðir eftir, í öðru lagi er borgin með fjögur stór athafnasvæði í þróun og í þriðja lagi eru margar áhugaverðir lóðir þegar byggingarhæfar á þéttingareitum,“ segir Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunar hjá Reykjavíkurborg. Hann sagði frá þróun á lykilatvinnusvæðum í Reykjavík á fundinum Athafnaborgin sem haldinn var sl. föstudag.
Stór þróunarverkefni
Reykjavíkurborg er með fjögur stór athafnasvæði í þróun og á samskipti við fjölmörg fyrirtæki vegna þeirra. Þetta eru Esjumelar, Álfsnes, Hólmsheiði og Sundahöfn, sem borgin þróar í samvinnu við Faxaflóahafnir. Óli Örn fór yfir þessi svæði á Athafnaborgarfundinum og eru meðfylgjandi myndir úr kynningu hans.
Esjumelar hafa byggst upp á undanförnum árum og gerir borgin lóðir byggingarhæfar eftir þörfum. Af nýjustu lóðunum við Bronssléttu eru aðeins þrjár lóðir eftir. Borgin á svo svæði til stækkunar bæði til austurs og suðurs, sem hægt er að vinna með í samstarfi við áhugasama aðila.
Álfsnes er í næsta nágrenni, en þar er borgin að vinna að þróun hringrásargarðs með fjölda samstarfsaðila. Sundabraut mun liggja um það svæði og í framtíðinni er gert ráð fyrir spennandi lóðum þar fyrir fyrirtæki sem tengjast hringrásarhagkerfinu.
Deiliskipulag fyrir Hólmsheiði er í vinnslu og gerir Óli Örn ráð fyrir að hægt verði að kynna það í sumar. „Við erum í samtali við sex stór fyrirtæki um að koma inn í fyrsta áfanga svæðisins,“ segir Óli Örn og ítrekar að þetta sé eingöngu fyrir fyrirtæki með mjög sterka umhverfisvitund því þarna sé grannsvæði vatnsverndar.
Þróun í Sundahöfn mun taka mið af endanlegri legu Sundabrautar, en þó beðið sé eftir niðurstöðu Vegagerðarinnar eru mörg verkefni þar þegar í gangi. Ný björgunarmiðstöð verður byggð í nágrenni við Klepp, framkvæmdir eru hafnar við farþegamiðstöð skemmtiferðaskipa við Skarfabakka, og þá liggur fyrir viljayfirlýsing um byggingu lífsgæðakjarna við Köllunarklett. „Svæðið er þannig að hálfu leyti í bið og að hálfu leyti í bullandi þróun,“ segir Óli Örn.
Margar byggingarhæfar lóðir á þéttingarsvæðum
„Það eru til margar tilbúnar lóðir til á þegar deiliskipulögðum svæðum,“ segir Óli Örn og vakti hann athygli á sex svæðum í borginni þar sem svigrúm er mikið til uppbyggingar atvinnustarfsemi, einkum fyrir þjónustu og léttan iðnað. Þessi svæði eru
- Hálsarnir, en þar eru að koma inn óskir um byggingarleyfi þar sem lóðarhafar eru að breyta sínum lóðum;
- Á Bústaðaveg eru þrjár byggingarhæfar lóðir þar sem byggja má 3-4.000 fermetra verslunar- og þjónustuhúsnæði sem borgin úthlutaði fyrir nokkrum árum.
- Suður-Mjódd, þar sem verið er að byggja stórhýsi við Álfabakka 2. Systurfélag Toyota er með verslunarhúsnæði í byggingu við Álfabakka 4 og Garðheimar opnuðu verslunarhúsnæði við Álfabakka 6.
- Lambhagavegur. Þar hefur verið jöfn uppbygging undanfarin ár en enn eru þrjár lóðir lausar.
- Norðlingaholt. Þar eru einnig atvinnulóðir óbyggðar.
- Grandi – þar hefur verið að myndast ákveðinn ferðaþjónustuklasi með Fly Over Iceland, OmmNomm, LavaShow og Norðurljósasýning, svo eitthvað sé nefnt. „Svæðið mun þróast í hæga-breytilega átt,“ segir Óli Örn og vísar til að það sé inn á svæði Faxaflóahafna.
Myndir af þessum svæðum má sjá í kynningu Óla Arnar.
Athafnaborgarfundurinn var vel sóttur. Ljósmyndir: Reykjavíkurborg/ Róbert Reynisson