Aukið og fjölbreyttara framboð íbúða í Reykjavík

Framkvæmdir Skipulagsmál

Einar Þorsteinsson borgarstjóri fór yfir nýjar áherslur í húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík.
Frá fundi borgarstjóra um uppbyggingu húsnæðis í Borgum 26. júní 2024. Horft aftan á fundargesti, Einar kynnir efni á glærum.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri bauð til blaðamannafundar í dag þar sem hann fór yfir nýjar áherslur í húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík, kynnti hugmyndir um styrkingu úthverfa og fór yfir stöðuna í húsnæðisátaki borgarinnar til að auka framboð íbúða.

Öflugri hverfi með uppbyggingu húsnæðis

Borgarstjóri setti í byrjun árs af stað verkefnishóp um húsnæðismál. Húsnæðisátakið er verkefni sem hugsað er til tveggja ára þar sem markmiðið er að vinna hratt og vel við að deiliskipuleggja og úthluta byggingarhæfum íbúðalóðum. Meðal áherslna er að skoða möguleika á þróun á litlum og meðalstórum lóðum í úthverfum. Byrjað var á því að skoða Grafarvog en með þessum breytingum fá fleiri tækifæri til að búa í þessu gróna hverfi.

Mikilvægt er að skoða hvert hverfi heildstætt og því var ákveðið að byrja í einu hverfi frekar en að skoða svæði hér og þar. Í Grafarvogi er um að ræða fjölgun um allt að 500 íbúðir en lögð er sérstök áhersla í þessari uppbyggingu á að öll ný byggð passi vel inn í það umhverfi sem fyrir er. Þarna eiga eftir að bætast við lítil fjölbýli, einbýli og parhús hér og þar í hverfinu sem taka mið af anda og aðstæðum á hverjum stað.

Lóðirnar sem stungið er upp á til uppbyggingar í húsnæðisátakinu eiga allar eftir að fara í gegnum hefðbundið deiliskipulagsferli, en þá gefst íbúum tækifæri til að koma með ábendingar og athugasemdir.

Betri nýting innviða í hverfunum

Markmiðið með uppbyggingunni er að efla hverfið og nýta innviði, svo sem vegakerfi og veitur, sem og verslunar- og þjónustukjarna. Einnig styður uppbyggingin við leikskóla og skóla í hverfinu, sem hafa svigrúm til þess að taka á móti fleiri nemendum.

Grafískt kort sem sýnir rými í skólum borgarinnar. Gert vegna fyrirhugaðrar uppbygginar í úthverfum.

Næst má búast við því að Breiðholtið verði skoðað í samhengi við tillögur sem komu fram í hverfisskipulagi sem var samþykkt fyrir skömmu.

Fleiri íbúðir í byggingu

Byggingarfulltrúi hefur skráð 605 íbúðir á byggingarstig á fyrstu mánuðum ársins 2024 en til samanburðar voru 690 íbúðir skráðar á byggingarstig á öllu árinu 2023.

Íbúðum í byggingu í borginni hefur því fjölgað nokkuð frá talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í mars 2024. Helstu ástæður fjölgunar má rekja til nokkurra stórra verkefna þar sem nýir áfangar hafa farið af stað við Hlíðarenda, Heklureit, Orkureit, Vogabyggð, Ártúnshöfða og Gufunes. Markmið borgarinnar er að skapa aðstæður fyrir uppbyggingu á 1.600 íbúðum á ári.

Kraftmikil uppbygging á svæðum við fyrirhugaða Borgarlínu

Á undanförnum vikum hafa verkefni með tæplega 500 íbúðir farið af stað víða um borgina. Þessi uppbygging er í takt við stefnu borgarinnar að miklu leyti í kringum áhrifasvæði borgarlínu.

Við Hlíðarenda eru framkvæmdir hafnar við 185 íbúða byggingu við Haukahlíð 4. Þar við hliðina á er Bjarg að undirbúa framkvæmdir við Haukahlíð 6 þar sem verða 86 íbúðir. Til viðbótar eru tvær byggingarhæfar lóðir á svæðinu við Nauthólsveg 79 (65 íbúðir) og Nauthólsveg 87 (144 námsmannaíbúðir HR) sem gætu farið af stað á árinu. Þá eru viðræður hafnar við Reiti um þróun á lífsgæðakjarna á svæðinu.

Grafískt kort sem sýnir staðsetningu á fyrirhugaðri uppbyggingu lífsgæðakjarna í borginni

Á Heklureit, Orkureit og við Vogabyggð hefur verið farið af stað með nýja áfanga og góður gangur í þessum verkefnum.

Ártúnshöfði 1 er kominn af stað og mun skriðþungi verkefnisins aukast á komandi misserum þar sem mikið af byggingarheimildum er til staðar í hverfinu. Núna er byggt á tveimur lóðum á svæðinu og á fundi byggingarfulltrúa 21. maí voru samþykkt áform um uppbyggingu á 50 íbúðum við Breiðhöfða 9. Annars staðar á Ártúnshöfða, í bryggjuhverfinu, eru framkvæmdir hafnar við 103 íbúðir við Gjúkabryggju 10. Í Gufunesi eru framkvæmdir hafnar við bílakjallara á Jöfursbási 1 þar sem gert er ráð fyrir alls 250 íbúðum í nokkrum áföngum. Fyrsti áfangi er með 83 íbúðir.

Þá eru lóðarhafar við Borgartún 34-36 byrjaðir að leggja inn teikningar vegna uppbyggingar á 100 íbúðum og nýverið var samþykkt skipulag við Safamýri 58-60 þar sem Bjarg mun byggja 40 íbúðir. Loks er Reykjavíkurborg búin að setja á sölu byggingarreit við Vesturbugt þar sem byggja má 196 íbúðir.

Samandregið hefur því íbúðum í byggingu fjölgað og fjöldi verkefna er á leið í uppbyggingu. Þar til viðbótar eru mörg stór skipulagsverkefni í vinnslu sem miða að því að auka enn á öfluga íbúðauppbyggingu í Reykjavík.

Aukin þjónusta inni í hverfunum

„Við erum að bregðast við þeirri stöðu að samdráttur hefur verið á húsnæðismarkaði. Við stofnunum starfshóp um húsnæðismál og nú, sex mánuðum síðar, kynnum við afrakstur verkefnisins og hvert við stefnum með húsnæðisátakið,“ segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri. „Við höfum farið gagnrýnið í að skoða hvernig hægt er að byggja upp án þess að ganga á gæði þeirra sem fyrir eru í hverfunum. Þessari uppbyggingu fylgja tækifæri til að efla þjónustu inni í hverfunum og það ætlum við að gera, jafnframt því að mæta þörf fyrir fleiri íbúðir.“

Tengt efni: