Átak til að efla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis næstu tvö ár

Framkvæmdir Skipulagsmál

Loftmynd yfir íbúðabyggð í snjó

Stofnaður verður sérstakur átakshópur í húsnæðismálum til að efla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni. Hlutverk hans er fyrst og fremst að horfa til uppbyggingar til næstu tveggja ára. Þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.

Markmið átakshópsins verður að styðja við að uppbygging hefjist á byggingarhæfum lóðum og að fyrirliggjandi skipulagsverkefni verði kláruð hratt og örugglega. Einnig mun hópurinn meta ný svæði sem gætu hentað til uppbyggingar og sjá til þess að gengið verði markvisst til verks við að gera svæðin byggingarhæf.

Einfalda ákvarðanatöku og efla samtal við uppbyggingaraðila.

Í erindisbréfi borgarstjóra segir að í ljósi stöðunnar á byggingar- og lánamarkaði og hægari uppbyggingar húsnæðis síðustu misseri, á sama tíma og íbúðaþörf vaxi stöðugt af ýmsum ástæðum, sé mikilvægt að stuðla að markvissari uppbyggingu og hraða skipulags- og undirbúningsvinnu.  Átakshópnum sé einkum ætlað að koma völdum byggingar- og þróunarsvæðum í Reykjavík á byggingarstig eins fljótt og auðið er. Unnið verði á grundvelli húsnæðisáætlunar Reykjavíkur, fyrirliggjandi viljayfirlýsinga við lóðarhafa og húsnæðisfélaga, auk húsnæðissáttmálans og markmiða aðalskipulags. Verkefnið mæti almennt knýjandi þörf um húsnæðisuppbyggingu en mæti einnig aukinni eftirspurn vegna húsnæðisvanda Grindvíkinga.

Mun styðja við metnaðarfullar áætlanir borgarinnar í húsnæðismálum

Síðustu ár hefur Reykjavíkurborg unnið markvisst að því að auka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni, á grundvelli húsnæðisáætlana og markmiða aðalskipulags Reykjavíkur. Í áætlunum hefur verið lagt upp með að auka heildarframboð íbúða, auka fjölbreytni í íbúðagerðum og búsetuformum og hlutdeild húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Í tillögu borgarstjóra sem samþykkt var í borgarráði í dag segir: „Þrátt fyrir að lóðaframboð borginnar hafi aukist á kjörtímabilinu og nú þegar sé hægt að byggja ríflega 2600 íbúðir á lóðum með samþykktu deiliskipulagi, þá hefur hægt á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Síðustu 12 mánuði hafa uppbyggingaraðilar búið við afar óhagstæð kjör á framkvæmdalánum vegna stöðunnar í hagkerfinu og hás vaxtastigs. Samkvæmt tölulegum upplýsingum borgarinnar er samdráttur í fjölda þeirra verkefna sem hefðu átt að hefjast á síðasta ári og samkvæmt nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins stefnir í áframhaldandi samdrátt í uppbyggingu íbúðahúsnæðis á landsvísu á þessu ári. Við þessari stöðu vill Reykjavíkurborg bregðast með því að setja af stað sérstakan átakshóp í húsnæðismálum með erindisbréfi.“