Stækkun leikskólans Klettaborgar tilbúin
Stækkun leikskólans Klettaborgar er lokið og fyrstu börnin eru komin í nýja húsið sem er vestan megin við Hamraskóla. Með stækkuninni fjölgar leikskólaplássum í Grafarvogi.
Mönnun á réttri leið
Á lóðinni sem telst til Sporhamra, var áður hús sem tvær dagmæður nýttu en þegar þær hættu störfum var í lófa lagið að fara í heildarendurnýjun og stækkun á húsnæðinu til að fjölga leikskólaplássum. Fyrsti áfanginn felur í sér innritun 15 barna næstu vikurnar og öll plássin 25 verða svo fyllt þegar tekist hefur að manna leikskólann að fullu. Mönnun gengur ágætlega og hafa nokkrir starfsmenn verið ráðnir og hluti þeirra hefur hafið störf að sögn Helenu Jónsdóttur sem er starfandi leikskólastjóri í Klettaborg.
Glæsilegt húsnæði með nútímakröfur í fyrirrúmi
„Hljóðvistin er mjög góð inni í húsinu og lítið sem ekkert heyrist inn frá skólalóðinni við hliðina. Rýminu er skipt í tvær deildir og fjölnotarými tekur við af hefðbundnum sal og mun þjóna sem samveruherbergi fyrir bæði húsnæði Klettaborgar, “ segir Helena og bætir við að gólfhiti sé í öllum rýmum, sjálfvirk ljósastýring að hluta og nýtt og gott loftræsikerfi.
Lóðin býður upp á skemmtileg ævintýri
Þá er móttökueldhús, sérstakt rými fyrir sérkennslu og fjölnota skrifstofurými. Lóðin, sem er tvískipt, er mjög vel heppnuð og nýtist öllum leikskólanum. Annað svæðið er sérstaklega hannað fyrir yngri börn og á stærra svæðinu er skemmtilegt útivistarsvæði með bálstæði fyrir skemmtilegar samkomur. Til að mynda sameinuðust öll börn og kennarar í desember og áttu saman skemmtilega jólastund. Einnig eru hugmyndir um að koma fyrir matjurtakössum á nýju vori, sem myndu styrkja útinám og umhverfismenntun í leikskólanum.