Skýrsla kynnt um starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á árunum 1974-1979
Sjálfstæð og óháð nefnd sem Reykjavíkurborg skipaði til að gera athugun á starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins í Reykjavík árin 1974-1979 kynnti niðurstöður sínar í dag. Um er að ræða framhaldsathugun sem unnin var í kjölfar fyrri athugunar á starfsemi vöggustofa í borginni árin 1949-1973.
Niðurstöður nefndarinnar eru í meginatriðum þríþættar:
- Í fyrsta lagi að því verði ekki slegið föstu að börn sem dvöldu á vöggustofunni á tímabilinu 1974–1979 hafi sætt illri meðferð á stofnuninni í skilningi laga nr. 45/2022.
- Í öðru lagi að málsmeðferð barnaverndar við töku ákvarðana um vistun barna á stofnuninni hafi oft og tíðum ekki verið í samræmi við lög.
- Í þriðja lagi að opinbert eftirlit með meðferð barna á stofnuninni hafi verið afar takmarkað og ekki í samræmi við lagakröfur um eftirlit með starfseminni á tímabilinu.
Úrbætur í starfsemi frá fyrra tímabili en ýmsum þáttum enn ábótavant
Á tímabilinu 1974-1979 voru alls vistuð 236 börn á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Börn voru ekki vistuð á stofnuninni eftir febrúar 1979 en á fyrri hluta þess árs var stofnunin sameinuð Vistheimili barna að Dalbraut 12 í Reykjavík.
Nefndin telur aðstæður á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, aðbúnaður barna þar, umönnun barna og möguleikar foreldra á heimsóknum hafa verið með betri hætti á tímabilinu 1974–1979 en við átti um tímabilið fyrir 1967, sem lýst er í skýrslu fyrri vöggustofunefndar.
Athugun á tímabilinu 1974-1979 bendir til þess að þá hafi ekki lengur verið fyrir hendi starfshættir á stofnuninni sem fólu almennt í sér að starfsfólki hafi verið settar skorður um umönnun barna eða að möguleikar starfsfólks á að sinna þörfum einstakra barna hafi verið takmarkaðir sérstaklega að öðru leyti.
Vissum þáttum í starfsemi stofnunarinnar var engu að síður ábótavant. Næturvaktir virðast hafa verið fáliðaðar, miðað við aldur og þarfir barna á vöggustofunni, almennt virðist ekki hafa verið hugað að því með faglegri vinnu eða greiningum að mæta sérþörfum barna, svo sem þeirra sem voru fötluð, þeirra sem voru eldri, þeirra sem komu úr sérstaklega erfiðum aðstæðum eða voru vistuð oft, og þá dvöldust börn í vissum tilvikum afar lengi á vöggustofunni.
Afdrif barnanna könnuð sérstaklega
Nefndin kannaði einnig afdrif barnanna sem vistuð voru á vöggustofunni á umræddu tímabili. Í skýrslunni má finna upplýsingar um hversu mörg börn voru vistuð á öðrum stofnunum og/eða fóru í fóstur. Þá er einnig að finna upplýsingar um dánartíðni og tíðni örorku í hópnum.
Nánari upplýsingar um málavexti, afdrif vöggustofubarna og tillögur nefndarinnar er að finna í skýrslu nefndarinnar.