Vöggustofunefnd (1974-1979)

Þann 11. janúar 2024 samþykkti borgarráð að setja á stofn nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að gera heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins (upptökuheimil barna) árin 1974-1979.

Nefndarmenn

Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir sömu reglum og koma fram í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nefndarmönnum er skylt að leggja fram skrá um hagsmunatengsl sín, sbr. reglur Reykjavíkurborgar um hagsmunaskráningu embættismanna.

  • Trausti Fannar Valsson dósent, formaður
  • Urður Njarðvík prófessor í barnasálfræði 
  • Ellý Þorsteinsdóttir félagsráðgjafi

Netfang vöggustofunefndar er voggustofur@reykjavik.is 

Nefndin hefur heimild til að ráða sér starfsmann. Nefndinni verður heimilt að kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar við einstaka þætti athugunarinnar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 45/2022 skal nefndin hafa óheftan aðgang að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem varða starfsemi þeirra vöggustofa sem lögin gilda um. Þar á meðal eru gögn sem hafa að geyma almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá skulu stjórnvöld, sé þess óskað af hálfu nefndarinnar, taka saman skriflegar greinargerðir um einstaka þætti könnunarinnar.

Miðað er við að nefndin skili lokaskýrslu sinni til borgarráðs eigi síðar en 15. desember 2024. Borgarráð ákveður þá meðferð sem lokaskýrsla nefndarinnar skal fá.

Markmið og meginverkefni

  1. Að lýsa starfsemi vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, hlutverki hennar í barnaverndar og/eða uppeldismálum og tildrögum þess að börn voru vistuð þar á því tímabili sem um ræðir.
  2. Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.
  3. Að lýsa því hvernig eftirliti Reykjavíkurborgar og ríkisins með vöggustofunum var háttað.
  4. Að lýsa öðrum atriðum sem tengjast starfsemi vöggustofunnar og nefndin telur þarfnast skoðunar.
  5. Leggja grundvöll að tillögum til borgarráðs um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.
  6. Nefndin skal skila skýrslu um störf sín til borgarráðs.

Fundir nefndarinnar skulu vera lokaðir.

Nefndarmenn og starfsmaður hennar eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er varðar einkalíf manna sem þeir fá upplýsingar um við störf nefndarinnar. Þagnarskylda um slík atriði helst þegar störfum nefndarinnar er lokið.

Formanni nefndarinnar er heimilt að veita almennar upplýsingar um störf nefndarinnar og verklag meðan hún starfar.

Ýmsar samþykktir

Vöggustofunefnd (1949-1973)