Reykjavíkurborg leitar að samstarfsaðilum

Horft yfir svæði Halla frá suðaustri.

Næstu skref í undirbúningi nýrra blandaðra íbúðarhverfa í Höllum í Úlfarsárdal hafa verið tekin. Um er að ræða þróun sem miðar að því að efla byggð í austurhluta Reykjavíkur með markvissri og sjálfbærri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. 

Markaðskönnun

Sem hluti af undirbúningi er Reykjavíkurborg um þessar mundir að vinna markaðskönnun þar sem kannaður er áhugi, geta og sjónarmið markaðarins vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs íbúðarhverfis í Höllum. Markaðskönnunin er liður í upplýsingaöflun borgarinnar og er ekki útboð, heldur ætlað að styðja við áframhaldandi mótun verkefnisins og ákvarðanatöku um næstu skref. 

Í könnuninni er meðal annars horft til umfangs og skipulags uppbyggingar, samspils íbúðarhúsnæðis og innviða, fyrirkomulag mögulegs samstarfs, fjármögnunar og tímasetninga. Jafnframt er leitað sjónarmiða um hvernig best sé að tryggja gæði, sjálfbærni og raunhæfan framkvæmdaferil í ljósi aðstæðna á byggingamarkaði. 

Niðurstöður markaðskönnunarinnar munu nýtast Reykjavíkurborg við frekari útfærslu verkefnisins og mótun þess ferlis sem fylgir næstu stigum skipulags og uppbyggingar í Höllum. 

Þetta er eitt stærsta mál samstarfsflokkana í borgarstjórn og gríðarlega gleðilegur áfangi að þetta mikla hagsmunamál sé komið í þennan farveg,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. Með samkeppnisviðræðum um innviðafélag  erum við að tryggja að innviðir hins nýja hverfis séu byggðir upp á sama tíma og hverfið sjálft. Ég er mjög spennt að sjá útkomuna því það skiptir miklu máli að við séum að leita nýrra leiða til að flýta uppbyggingu nýrra hverfa og auka framboð ólíkra íbúðarkosta svo öll geti fundið sér heimili.” 

Styrkir þá byggð sem fyrir er 

Þróunin í Höllum er hluti af langtímasýn borgarinnar um fjölbreytt húsnæðisframboð og öfluga borgarhluta þar sem mannlíf, samgöngur og umhverfi eru í jafnvægi. 

Markmið uppbyggingarinnar er að styrkja húsnæðismarkað borgarinnar og nýta land á skilvirkan hátt með fjölbreyttri og blandaðri byggð. Áhersla er lögð á heildstæða nálgun þar sem íbúðarhúsnæði, innviðir og nærumhverfi mynda samfellda heild, tengda góðum almenningssamgöngum og náttúrugæðum svæðisins.