Hallar
Um þessar mundir er að hefjast þróun á uppbyggingu nýrra blandaðra íbúðarhverfa í Höllum, til að efla borgarhluta Grafarholts-Úlfarsárdals í austurhluta Reykjavíkur. Markmið uppbyggingar er að efla húsnæðismarkað og nýta land vel með blandaðri og fjölbreyttri byggð, tengdri góðum almenningssamgöngum og náttúrugæðum svæðisins.
Markaðskönnun
Reykjavíkurborg kannar nú áhuga, getu og sjónarmið markaðarins vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs íbúðarhverfis í Höllum í Úlfarsárdal, með sérstakri áherslu á heildstæða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, innviða, fjármögnun og samstarfsfyrirkomulag.
Starfshópur
Í lok nóvember 2025 var skipaður starfshópur sem falið var að hefja undirbúning að samstarfi við innviðafélag um þróun og uppbyggingu nýs íbúðahverfis í Höllum. Val á samstarfsaðilum fari fram skv. 37. gr. laga nr. 120/2016 um samkeppnisviðræður.
Valinn samstarfsaðili taki þátt í þróun nýs íbúðarhverfis samkvæmt settum markmiðum og skilyrðum borgaryfirvalda, byggi tiltekna grunninnviði og samfélagslegar stofnanir, gegn sölu á tilteknu magni byggingarréttar í opnu og gagnsæju ferli til byggingaraðila á almennum markaði. Undirbúningur fari fram samhliða gerð aðalskipulagsbreytingar og frumdraga rammaskipulags.
Loftmyndir og skýringarmyndir
Styrki þá byggð sem fyrir er
Skipulagning nýs skólahverfis í landi Halla felur í sér tækifæri til að efla borgarhlutann Grafarholt-Úlfarsárdal sem samfélagslega heild, þar sem þegar er búið að fjárfesta á metnaðarfullan hátt í samfélags- og menningarstofnunum og íþróttamannvirkjum. Jafnframt skapast tækifæri til að efla verslun og þjónustu á svæðinu. Markmiðið er að ný hverfi í Höllum og nágrenni styrki þá byggð sem er fyrir.
Uppbygging nýrra íbúðarhverfa í Úlfarsárdal er enn fremur lykil forsenda þess að efla húsnæðismarkaðinn í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum og liður í því stuðla að auknu og stöðugra framboði íbúða, samanber markmið Húsnæðisáætlunar 2025-2034.
Breytingar á Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, er varða landnotkun og þróun byggðar í Höllum í Úlfarsárdal voru kynntar í skipulagsgátt í lok árs 2025.
Uppbygging almenningssamgangna
Uppbygging öflugra almenningssamganga er mikilvæg forsenda þess að hægt verði að byggja upp ný borgarhverfi á svæðinu á vistvænan og hagkvæman hátt. Það er enn fremur lykil forsenda í þróun frekari byggðar í Úlfarsárdal. Styrking stofn- og tengibrauta að svæðinu, samanber gildandi stefna Aðalskipulags Reykjavíkur 2040, er einnig forsenda þess að fjölga íbúðum verulega í Úlfarsárdal, fyrst í Höllum og síðar mögulega í innanverðum dalnum.
Hvar fæ ég frekar upplýsingar?
Gögn:
Viltu vita meira eða ertu með athugasemd? Sendu tölvupóst á hallar@reykjavik.is