Vísindi, nýsköpun og uppbygging þjónustu í hverfum borgarinnar
Borgarstjóri býður til fundar um atvinnulíf og uppbyggingu innviða undir yfirskriftinni Athafnaborgin föstudaginn 10. október 2025 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundurinn hefst kl. 9:00 og stendur til 10:30. Boðið verður upp á létta morgunhressingu og óformlegt spjall frá kl. 8:30. Fara í skráningu.
Vísindi og nýsköpun; verslun og þjónusta í hverfum borgarinnar, auk uppbyggingar stærri atvinnusvæða og öflugra atvinnugreina eru áhersluþættir fundarins í ár.
Efling atvinnulífs í hverfum
Athafnalífið í hverfum borgarinnar verður rætt á kynningarfundinum. Danski sérfræðingurinn Peter Bur Andersen hjá BRIQ group deilir reynslu af vinnu þeirra með smásölu- og borgarlífsstefnur, staðarsköpun (e. place making), tímabundnar virknistrategíur til að keyra líf í atvinnuhúsnæði í gang o.fl.
Þessa dagana er í gangi könnun meðal borgarbúa um hvaða rekstur þeir vilja í sínu hverfi. Upplýsingar úr könnun verða kynntar á fundi borgarstjóra. Könnunin er opin og fljótlegt að svara þessum þremur spurningum.
- Hvaða rekstur gerir hverfið þitt betra?
- Er eitthvað nýtt og spennandi í þínu hverfi?
- Hvar í hverfinu er best að hitta nágranna?
Taka þátt í könnun um verslunar- og þjónustuaðila í hverfum.
Lífvísindi skapa verðmæti og auka lífsgæði
Vísindaþorpið í Vatnsmýri verður í kastljósi fundarins. Meðal annars mun Dr. Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch kynna helstu niðurstöður nýlegrar kortlagningar á fyrirtækjum í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi. Fjallað verður um vöxt greinarinnar, tækifæri og áskoranir sem fyrirtækin standa frammi fyrir, og hvernig lífvísindi geta skapað verðmæti, störf og aukin lífsgæði fyrir samfélagið.
Ný atvinnusvæði í útjaðri borgarinnar
Sagt verður frá atvinnusvæðum sem eru í undirbúningi og hvar uppbygging nýrra svæða er stödd í ferlinu. Af svæðum og verkefnum sem ber hæst er hringrásargarður á Álfsnesi, en vinna er í gangi við að móta þróunaráætlun og rammaskipulag fyrir svæðið. Þá er áframhaldandi uppbygging á Esjumelum. Einnig verður sagt frá stöðu mála í Gufunesi og á Hólmsheiði.
Skráning og þátttaka
Fundurinn er öllum opinn, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku. Hér er mikilvægur vettvangur fyrir stjórnendur, frumkvöðla, fyrirtækjaeigendur og aðra sem starfa í atvinnulífi borgarinnar, bæði til að hlusta á efni fundarins sem og hitta aðra í morgunhressingunni fyrir fundinn. Hægt verður að fylgjast með í beinni útsendingu fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Athafnafólk er hvatt til að taka tímann frá. Í lok skráningar er möguleiki að setja fundinn í eigin dagbók. Fara í skráningu og færa fundinn í dagbók.