Verum klár á Menningarnótt!
Í ár eru liðlega 400 viðburðir. Dans, tónlist, lúðrablástur, vöfflukaffi, söngur, listsýningar og ekki gleyma bekkpressumótinu sem verður fyrir utan Kjarvalsstaði. Þetta og margt fleira verður í boði á Menningarnótt.
Í ár eru liðlega 400 viðburðir. Dans, tónlist, lúðrablástur, vöfflukaffi, söngur, listsýningar og ekki gleyma bekkpressumótinu sem verður fyrir utan Kjarvalsstaði. Íbúar taka líka þátt, opna heimili sín, búa til dagskrá og sýna á sér sparihliðarnar.
Setning Menningarnætur
Menningarnótt verður hátíðlega sett klukkan 12.30 á tröppum Þjóðleikhússins sem fagnar 75 ára afmæli í ár. Mikið verður um dýrðir og mun bæjarfógetinn Bastían í Kardemommubæ stíga fyrstur á svið, að því loknu mun Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri setja hátíðina formlega. Logi Einarsson, menningarmálaráðherra flytur stutta afmælisræðu. Því næst koma frægar persónur úr vinsælustu leikritum sögunnar og bregða á leik þeirra á meðal eru Lína Langsokkur, Elsa og Ólafur úr Frosti, Mikki refur og Lilli klifurmús úr Kardemommubænum og fleiri.
Færeyingar heiðursgestir
Heiðursgestir Menningarnætur í ár eru Færeyingar sem ætla að sjá um menningar- og skemmtidagskrá í Ráðhúsinu – við bjóðum þau sérstaklega velkomin. Boðið verður upp á tónlist, myndlist og veitingar að hætti frænda okkar Færeyinga.
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá á Listasafni Reykjavíkur og Borgarsögusafni og er ókeypis aðgangur.
Tónlistin skipar stóran sess, Tónaflóð Rásar 2 verða á Arnarhóli en þar koma meðal annarra fram Geðbrigði, KÓla, Retro Stefson, Elín Hall, VÆB og Emmsjé Gauti ásamt gestum.
Moment DJ Margeirs verður svo á Klapparstíg þar sem boðið verður upp á dynjandi tónlist og stuð.
Bylgjan verður á sínum stað í Hljómskálagarðinum, þar koma fram Herra Hnetusmjör, Nýdönsk, GDRN, Skímó og Klara Einars. Götubitinn verður með 22 veitingavagna sem verða með gómsæta rétti á boðstólum.
Fjölskyldan saman í borgina og saman heim
Menningarnótt lýkur klukkutíma fyrr í ár eða klukkan 22.00 um kvöldið með flugeldasýningu. Þessi breyting er til að undirstrika að þetta er fjölskylduhátíð þar sem lögð er áhersla á að fjölskyldan komi saman í miðborgina og fjölskyldan fari saman heim.
Þetta er líka í takt við átakið Verum klár sem Reykjavíkurborg stendur fyrir, þar sem áhersla er lögð á jákvæð skilaboð til ungs fólks og aðstandenda þeirra um samveru og heilbrigðan lífstíl.
Við hvetjum öll til að vera klár almennt í lífinu. Taka góðar ákvarðanir og hugsa um hvert annað. Við berum öll ábyrgð hvert á öðru og að öllum líði vel.
Minningarstund um Bryndísi Klöru
Í lok hátíðarinnar verður Bryndísar Klöru Birgisdóttur minnst með einnar mínútu þögn á Arnarhóli í samstarfi við RÚV. Að lokinni minningastund verður svo flugeldasýning sem tileinkuð er Bryndísi Klöru og öllum þeim ungmennum sem orðið hafa fyrir ofbeldi.
Aðgengi og öryggismál
Af öryggisástæðum verður miðborgin lokuð fyrir akandi umferð svo gestir geti notið dagskrár Menningarnætur.
Frá kl. 12.00 fimmtudaginn 21. ágúst verður Kalkofnsvegur, á milli Hverfisgötu og Geirsgötu, lokaður vegna uppsetningar á sviði við Arnarhól. Lokunin mun vara fram yfir Menningarnótt. Aðeins verður viðbragðsaðilum heimilt að fara í gegnum lokunina. Þeir strætisvagnar sem alla jafna fara þessa leið fara hjáleið. Upplýsingar á straeto.is.
Strætóskutlur aka til og frá bílastæðum við Laugardalshöll um Borgartún að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi frá kl. 07.30–23.15.
Frá kl. 16.00 föstudaginn 22. ágúst verður Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu lokað vegna undirbúnings Reykjavíkurmaraþons. Lokunin mun vara fram yfir Menningarnótt.
Almennt gilda götulokanir frá klukkan 07.00 að morgni laugardagsins 23. ágúst og standa til klukkan 01.00 eftir miðnætti, nema annað sé takið fram.
Gestir eru hvattir til að koma fótgangandi eða hjólandi í miðborgina eða með almenningssamgöngum. Vinsamlegast skoðið kort yfir götulokanir og upplýsingar um aðgengi á Menningarnótt.
Í samráði við rafskútufyrirtækin verður aðeins hægt að leggja rafskútum á ákveðnum svæðum í jaðri hátíðarsvæðið Menningarnætur.
Dagskrána má nálgast á menningarnott.is
Gleðilega hátíð!