Verum klár
Verum klár
Reykjavíkurborg stendur í sumar fyrir átaki undir formerkjunum Verum klár þar sem áhersla er lögð á jákvæð skilaboð til ungs fólks og aðstandenda þeirra um samveru og heilbrigðan lífstíl.
Sumarið er tími ævintýra með sínum löngu og björtu dögum, tími þegar dagskipulagið breytist og mörg skemmtileg tækifæri gefast til samveru með vinum og fjölskyldum. Átakið Verum klár snýst um að vera klár í sumarið og sýna hvort öðru virðingu, samkennd og stuðning.
Verum klár átakið er hluti af stærra átaki hjá Reykjavíkurborg sem miðar að því að auka samstarf við foreldra og efla forvarnarfræðslu til ungmenna og sporna þannig við neikvæðri þróun hvað varðar áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi meðal barna.
Verum klár er ákall til samfélagsins í heild að fara fram með góðu fordæmi og að huga að jákvæðum samverustundum og góðum samskiptum.
Hugsum með hjartanu
Það er mikilvægt að ungt fólk sé meðvitað um að þau hafi áhrif á samfélagið með hegðun sinni og gjörðum.
Með átakinu Verum klár er vakin athygli á því hversu frábært ungt fólk er. Á sama tíma er mikilvægt að minna á að hluti af því að fullorðnast er að hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum okkur, koma vel fram og vera góður við aðra.
Uppeldi er ábyrgðarstarf þar sem foreldrar eru við stjórnvölinn. Að ala upp einstakling felst í því að eiga jákvæð samskipti, vera með skýr skilaboð, hrósa, sýna aga og virða mörk. Þannig fá börn og ungmenni skýr skilaboð um hlutverk sitt og áhrif á samfélagið. Verum klár og sýnum hvert öðru virðingu, samkennd og stuðning.
Verum klár og hugsum með hjartanu, ekki bara höfðinu.
