Verum klár

Reykjavíkurborg stendur í sumar fyrir átaki undir formerkjunum Verum klár þar sem áhersla er lögð á jákvæð skilaboð til ungs fólks og aðstandenda þeirra um samveru og heilbrigðan lífstíl.
Sumarið er tími ævintýra með sínum löngu og björtu dögum, tími þegar dagskipulagið breytist og mörg skemmtileg tækifæri gefast til samveru með vinum og fjölskyldum. Átakið Verum klár snýst um að vera klár í sumarið og sýna hvort öðru virðingu, samkennd og stuðning.
Verum klár átakið er hluti af stærra átaki hjá Reykjavíkurborg sem miðar að því að auka samstarf við foreldra og efla forvarnarfræðslu til ungmenna og sporna þannig við neikvæðri þróun hvað varðar áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi meðal barna.
Verum klár er ákall til samfélagsins í heild að fara fram með góðu fordæmi og að huga að jákvæðum samverustundum og góðum samskiptum.

Verum klár á 17. júní
Á þjóðhátíðardaginn 17. júní verður boðið upp á fjölbreytta og veglega dagskrá. Hátíðardagskrá verður á Austurvelli, skrúðganga fer frá Hallgrímskirkju, tónleikar, götuleikhús, dansveisla, sirkus, leiktæki, matarvagnar og fornbílasýningar í Hljómskálagarði og á Klambratúni svo fátt eitt sé nefnt.
Dagskráin hefst klukkan 11:00 á hátíðardagskrá á Austurvelli. Að þeirri athöfn lokinni fer skrúðaganga sem skátarnir leiða í Hólavallagarð þar sem lagður verður blómsveigur frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar og konu hans Ingibjargar Einarsdóttur.
Skrúðganga sem skátarnir leiða fer frá Hallgrímskirkju klukkan 13:00 og verður gengið sem leið liggur niður í Hljómskálagarð þar sem boðið verður upp á fjölbreytt skemmtiatriði fyrir öll.
Á Klambratúni verður einnig boðið upp á dagskrá frá klukkan 13:00 verður þjóðhátíðardeginum fagnað með léttri og skemmtilegri stemningu fyrir alla fjölskylduna sem hefst kl. 13:00.
Þjóðhátíðardeginum 17. júní verður fagnað á Árbæjarsafni með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá þar sem þjóðbúningar, þjóðdansar, fjallkonan, fornbílar, harmonikkuleikur, veitingasala og gömlu góðu sleikjóarnir koma við sögu.
Sjá nánar upplýsingar um hátíðahöldin og götulokanir á 17.juni
Verum klár i allt sumar!