Vel heppnað Virkniþing

Fullur salur af fólki á Virkniþingi í morgun
Fullur Tjarnarsalur af fólki á Virkniþingi í morgun

Fjöldi fólks sótti Virkniþing fyrir eldra fólk sem haldið var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í morgun.

Á Virkniþinginu voru haldin áhugaverð erindi þar sem farið var inn á ýmsa þætti sem tengjast því hvernig stuðla megi að bættum lífsgæðum með því að efla félagslega virkni eldra fólks.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri fjallaði um það að eldast í Reykjavík og hvað stæði til boða í menningu, íþróttum og útivist í borginni.

Willum Þór Þórsson, forseti Íþrótta og ólympíusambands Íslands fjallaði um mikilvægi þess að vera virkur á efri árum, það bætti andlega og líkamlega heilsu.

Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri Tölum saman hjá Félags- og húsnæðismálaráðuneyti fjallaði í erindi sínu um einmanaleika. Í máli hennar kom fram að rannsóknir sýna fram á að félagsleg einangrun aldraðra, fari vaxandi í hinum vestræna heimi. Sem dæmi um stóra áhættuþætti sem geta ýtt undir félagslega einangrun er makamissir, að hætta að vinna og heyrnarskerðing. Til að viðhalda félagslegri virkni er mikilvægt að sækja alls konar afþreyingar í formi menningar, hreyfingar og útivistar sem sé lykillinn góðum lífsgæðum.

Gleðidansinn í Tjarnarsal
Gleðidansinn í Tjarnarsal.

Að loknum erindum var dansaður gleðidans í Tjarnarsalnum. Auður Harpa, danskennari steig á svið og stýrði skemmtilegum dansi og tóku allir þátt.

Að loknum gleðidansinum tók við kynning á þeirri fjölbreyttu heilsueflandi þjónustu og afþreyingu sem eldra fólki í Reykjavík stendur til boða. Meðal þeirra sem kynntu vetrardagskrána voru samfélagshús, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög, bókasöfn, sundlaugar, heilsugæslan og fleiri aðilar.

Bæklingur um framboð á menningu, íþróttum og útivist í Reykjavík.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri heilsaði upp á einn heimsóknarvin með hund ásamt Steinunni Ásu Þorvaldsdóttir, starfsmaður í Ráðhúsi Reykjavíkur
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri heilsar upp á heimsóknarvini með hund ásamt Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur, starfsmanni Ráðhússins.

Gestum gafst meðal annars tækifæri á að fá far með farþegahjóli sem var á staðnum. Og heimsóknarvinir með hunda, sem er verkefni hjá Rauða Krossinum, vöktu mikla lukku. Heimsóknavinir fara ásamt eigin hundi og hitta einstaklinga eða hópa á heimilum þeirra, á hjúkrunarheimilum eða öðrum stöðum þar sem óskað er eftir hundaheimsóknum. Hlutverk heimsóknavina með hund er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. 

Takk fyrir komuna!