Unnar verða tillögur um bætta aðstöðu til tónleikahalds

Róbert Reynisson
Nærmynd af fólki í fremstu röð á tónleikum. Myrkur, fólk á öllum aldri.

Skipaður verður spretthópur sem mótar tillögur um hvernig má bæta aðstöðu til lifandi tónlistarflutnings í Reykjavík. Hópurinn verður skipaður fulltrúum Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Tónlistarmiðstöðvar, Tónlistarráðs og tónleikahaldara.

Tónlistarborgin metur stöðu smærri tónleikastaða í Reykjavík veika og að brýn þörf sé á aðgerðum í þeirra þágu. Tillaga um skipan spretthóps var samþykkt samhljóða á fundi menningar- og íþróttaráðs borgarinnar. Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: „Tónlist er mikilvægt samfélagslegt afl og sjálfstæð uppspretta menningarlegra og efnahagslegra gæða auk þess að vera farvegur fyrir mikil sóknarfæri í frjóu borgarumhverfi. Með því að styðja á kerfisbundinn hátt við tónleikastaði í borginni getur Reykjavíkurborg nært enn frekari uppbyggingu öflugs tónlistarlífsins með þeim menningarlega, samfélagslega og efnahagslega ávinningi sem því fylgir.“

Í skýrslu starfshóps Tónlistarborgarinnar frá árinu 2017 um stöðu lifandi tónlistarflutnings er skýrt að miklar breytingar til hins verra hafa orðið á aðstöðu til lifandi tónlistarflutnings í borginni. Áður var framboð á minni stöðum, sem rúma 100-300 tónleikagesti, ágætt í Reykjavík en þeim rýmum hefur fækkað verulega sem hafa góða aðstöðu fyrir slíka tónleika. Staðan hefur raunar vakið athygli erlendis og birtist stór grein um stöðu lifandi tónlistarflutnings í Reykjavík hjá The Guardian.

Spretthópurinn mun vinna tillögur um aðgerðir til að snúa vörn í sókn í aðstöðumálum tónlistarborgarinnar Reykjavík. Markmiðið er að styðja á áhrifaríkan og stöðugan hátt við lifandi tónlistarflutning í borginni; íslenskum almenningi, ferðamönnum og tónlistarfólki til heilla. Hópurinn skilar áfanganiðurstöðum fyrir 15. janúar 2026 og endanlegum tillögum fyrir 1. mars 2026.