Menningar- og íþróttaráð - Fundur nr. 18

Menningar- og íþróttaráð

Ár 2025, föstudaginn 28. nóvember var haldinn 18. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:06.  Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Friðjón R Friðjónsson, Kristinn Jón Ólafsson, Kjartan Magnússon, Sara Björg Sigurðardóttur og Stefán Pálsson. Anna Eyjólfsdóttir varaáheyrnarfulltrúi BÍL. Jafnframt:  Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Helga Friðriksdóttir, Elín Hrefna Ólafsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á tjaldsvæðum á höfuðborgarsvæðinu. MIR25110013

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Menningar- og íþróttaráð þakkar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins kærlega fyrir góða samantekt og kynningu á tjaldsvæðum höfuðborgarsvæðisins. Tökum við undir mikilvægi næstu skrefa um vinnustofu með sveitarfélögunum og ferðaþjónustunni þar sem farið verður nánar yfir tækifæri til frekari þróunar, viðhalds og uppbyggingar á aðstöðu tjaldsvæða innan höfuðborgarsvæðisins.

     

    Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á Listasafni Reykjavíkur. MIR25110014

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði þakka fyrir góða kynningu frá Listasafni Reykjavíkur, flaggskipi menningaborgarinnar með mjög fjölbreytta starfsemi víðsvegar um borgina. Ný nálgun til að reyna ná til breiðari hóps gesta með því að leggja áherslu á börn, barnafjölskyldur, ungt fólk, grænar áherslur og inngildandi þætti lista og menningar tala einmitt inn í breytta samfélagsgerð og íbúaþróun borgarinnar. Áherslur þess eru lofsverðar, einkum varðandi þá stefnu að opna faðm sinn fyrir ungu fólki og metnað varðandi tengingu við nærsamfélagið á einstökum starfsstöðum þess og í almannarýminu. Dagskrá safnsins á komandi ári er metnaðarfull og spennandi. Eins er ljóst að safnið stendur frammi fyrir miklum áskorunum, meðal annars í tengslum við varðveislu- og geymslumál.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar þakka fyrir góða kynningu á starfsemi Listasafns Reykjavíkur. Jafnframt eru þær ábendingar til safnsins ítrekaðar, að efnt verði til sýninga á færeyskri og grænlenskri myndlist. Um gæti verið að ræða sýningar á nútímalist eða yfirlitsýningu sígildra verka. Færeyingar og Grænlendingar búa að ríkri myndlistarhefð og nútímalist beggja þjóða er blómleg. Slíkt sýningarhald gæti verið hluti af vestnorræna höfuðborgarsamstarfinu og eftir atvikum í samstarfi við listasöfnin í Nuuk og Þórshöfn. Slíkt samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Færeyja heppnaðist afar vel árið 2008 þegar verk færeyska meistarans Mikiness voru sýnd að Kjarvalsstöðum við metaðsókn almennings.

     

    Markús Þór Andrésson safnstjóri Listasafns Reykjavíkur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Fram fer kynning á samantekt og tillögum stýrihóps um framtíðarsýn fyrir Viðey dags. í nóv. 2025. MIR24080006

    Samþykkt.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Viðey er dýrmæt perla í borgarlandinu, sögufrægur staður sem eitt sinn var stjórnsýslumiðstöð landsins er heimili elstu steinhúsa á Íslandi og merkra útilistaverka sem laða að erlenda ferðamenn sem innlenda gesti. Stýrihópur um stefnumótun varðandi Viðey leggur áherslu á að varðveita stöðu Viðeyjar sem friðsæls sögustaðar í hjarta borgarinnar en jafnframt búa svo um hnútana að fleiri geti notið þess sem eyjan hefur upp á að bjóða, náttúrufegurð, sögu og menningu. Lagt er til að fræðsluhlutverk eyjunnar verði eflt og öll grunnskólabörn í borginni heimsæki eyjuna, aðgengismál verði bætt og mannvirkjum eyjunnar vel við haldið. Lagt er til að undirbúningur verði hafinn að því að koma upp nýju systurverki Friðarsúlunnar og að samstarf verði aukið við Höfða friðarsetur til að undirstrika boðskapinn um frið sem sannarlega á brýnt erindi við almenning hér heima og erlendis.

     

    Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns, Inga María Leifsdóttir verkefnisstjóri, Þórólfur Jónsson deildarstjóri og Sabine Leskopf borgarfulltrúi sitja fundinn undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um fjárhagsáætlun menningar- og íþróttasviðs 2026.  MIR25110006

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram bókun sem lögð er í trúnaðarbók.

  5. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 26. nóvember 2025 um tillögur um samninga við félög og samtök sem renna út um áramótin. 

    Jafnframt lagt fram minnisblað menningar- og íþróttasviðs dags. 27. nóv. 2025 varðandi endurnýjun samninga við félög og samtök. Trúnaðarmál.  MIR25110011

    Frestað.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna um skipan spretthóps um aðstöðumál tónlistar í borginni. MIR25110015

    Lagt er til að skipaður verði spretthópur sem móti tillögur um hvernig megi bæta aðstöðu til lifandi tónlistarflutnings í Reykjavík. Hópurinn verði skipaður fulltrúum Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Tónlistarmiðstöðvar, Tónlistarráðs og tónleikahaldara.  Hópurinn skili áfanganiðurstöðum fyrir 15. janúar 2026 og lokaniðurstöðum fyrir 1. mars 2026.

    Samþykkt.

     

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Íslenskir tónlistarmenn hafa haslað sér völl á alþjóðavettvangi svo eftir hefur verið tekið og hefur verið mikil gróska í geiranum frá því fyrir aldamót. Það er nauðsynleg forsenda fyrir blómlegu tónlistarlífi að aðstaða til lifandi tónlistarflutnings sé góð og fjölbreytt. Það er því verulegt áhyggjuefni að tónleikastöðum hefur fækkað til muna undanfarin ár og hefur fjórum tónleikastöðum í miðborginni verið lokað á undanförnum tveimur árum. Nú þarf að snúa vörn í sókn og því setur meirihlutinn af stað vinnu við að móta tillögur um aðgerðir til að bæta aðstöðu til tónleikahalds í borginni. Skipaður verður spretthópur valinkunnra aðila úr tónlistargeiranum sem munu vinna hratt og vel og skila af sér á fyrstu mánuðum nýs árs.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga og greinargerð faghóps um styrkveitingar menningar- og íþróttaráðs til menningarmála 2026. Trúnaðarmál fram að úthlutun. MIR25110012

    Samþykkt.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem lögð er fram í trúnaðarbók.

  8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 21. nóvember 2025 um skipun tveggja fulltrúa í stjórnarnefnd Kjarvalsstofu í París 2026-2028 – MIR25110010 

    Samþykkt.

  9. Lagt fram svar skrifstofu menningar- og íþróttasviðs dags. 26. nóvember 2025 við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna um frístundakort. MIR25110008.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11:50

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Sara Björg Sigurðardóttir Stefán Pálsson

Kjartan Magnússon Friðjón R. Friðjónsson

Aðalsteinn Haukur Sverrisson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 28. nóvember 2025