Þjónusta sem skiptir máli

Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 er nú aðgengileg á vefnum. Í skýrslunni er farið yfir helstu verkefni og árangur sviðsins á árinu, þar sem áhersla var lögð á að bæta þjónustu við íbúa og starfsfólk, efla stafræna innviði og stuðla að nýsköpun í starfsemi borgarinnar.
Ársskýrslan veitir innsýn í hvernig Reykjavíkurborg vinnur markvisst að því að bæta þjónustu við íbúa og starfsfólk, með áherslu á stafræna umbreytingu, nýsköpun og notendamiðaða nálgun.
Helstu hápunktar ársins 2024:
Mínar síður – öflug þjónustugátt fyrir íbúa
Mínar síður styrktust enn frekar sem ein helsta stafræna þjónustugátt borgarinnar, með markmiðið að einfalda líf fólks og fyrirtækja með aðgengi að þjónustu og yfirsýn yfir eigin mál.
Alþjóðleg viðurkenning fyrir góða þjónustu
Verkefnið „Betri borg fyrir börn“, sem miðar að því að bæta þjónustu við börn sem þurfa aukinn stuðning í skóla, hlaut gullverðlaun í Seoul Smart City Prize. Þetta er mikil viðurkenning á því hvernig Reykjavíkurborg nýtir stafrænar lausnir og þjónustuhönnun til að mæta þörfum barna og fjölskyldna þeirra.
Samstarf og stefnumótun
Þjónustu- og nýsköpunarsvið tók virkan þátt í samstarfi við ríki og sveitarfélög um stafræna umbreytingu opinberrar þjónustu á vettvangi Jónsmessunefndar. Stafrænt ráð, skipað kjörnum fulltrúum borgarstjórnar, hélt utan um framgang stafrænna umbóta og stuðlaði að auknu gegnsæi og skilvirkni í stjórnsýslu borgarinnar.
Mannauður og starfsumhverfi
Þjónustu- og nýsköpunarsvið hlaut viðurkenningu sem frábær vinnustaður frá Great Place to Work og var í öðru sæti meðal stórra vinnustaða sem sérstaklega góðir fyrir konur. Kynntar voru nýjar stefnur um viðveru og heilsu starfsfólks, með áherslu á vellíðan og jákvætt starfsumhverfi.