Stuðningur við öflugt nýsköpunarstarf
Gengið hefur verið frá nýjum samningi sem tryggir áframhaldandi fjárhagslegan og faglegan stuðning við nýsköpunarstarf á vegum KLAK-Icelandic Startups sem m.a. heldur frumkvöðlakeppnina Gulleggið og viðskiptahraðalinn Hringiðu sem styður við þróun nýrra hugmynda, tækni og lausna sem beinast að brýnum umhverfis- og loftlagsáskorunum.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK-Icelandic Startups skrifuðu undir samning þessa efnis í gær og hefur hann verið samþykktur í borgarráði.
Nýjar lausnir fyrir borgina
Markmið samningsins eru að efla frumkvöðlastarfsemi og veita Reykjavíkurborg tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stuðningsverkefna við nýsköpun meðal annars með það fyrir augum að hvetja til nýrra lausna á áskorunum sem borgin stendur frammi fyrir.
Brautargengi fyrir frumkvöðla
KLAK-Icelandic Startups hefur gegnt lykilhlutverki til að hjálpa fjölda frumkvöðla í íslensku nýsköpunarumhverfi og unnið markvisst að því að búa til brautargengi fyrir hugmyndir sem verða að verðmætum lausnum í samfélaginu. Með samningnum er styrkt stoðkerfi sem nýtist bæði borginni og nýsköpunarumhverfinu í heild.