Skjáheimsóknir vinna gegn einmanaleika og skapa öryggi

Ólöf Elíasdóttir, sem starfar í skjáveri Reykjavíkurborgar, í skjáheimsókn.
Starfsmaður heimaþjónustu Reykjavíkurborgar sést í skjáheimsókn.

Stór hluti þeirra notenda skjáheimsókna í heimaþjónustu sem finna fyrir einmanaleika segja heimsóknirnar draga úr honum, eða 79%. Mikill meirihluti notenda skjáheimsókna telur þjónustuna auka öryggi sitt heima fyrir, eða 83%. Þetta sýnir ný þjónustukönnun um skjáheimsóknir í heimaþjónustu sem heilt yfir gefur til kynna mikla ánægju meðal notenda þjónustunnar.

Farinn að hlakka til að fá heimsókn á skjáinn

Undir heimaþjónustu fellur bæði heimastuðningur og heimahjúkrun. Notendur skjáheimsókna fá spjaldtölvu heim endurgjaldslaust sem eingöngu er notuð í skjásamtölin. Spjaldtölvurnar eru einfaldar í notkun og á færi langflestra að tileinka sér notkun þeirra. 

Könnunin var unnin af teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Allir þeir 56 einstaklingar sem svöruðu könnuninni svöruðu játandi þegar þeir voru spurðir að því hvort þeim þætti þjónustan góð og fagleg. Tólf viðmælenda nefndu sérstaklega að það veitti þeim öryggi að fá skjáheimsóknir þar sem þeir búa einir á heimili. „Öryggi í því að fá heimsóknirnar því ég bý einn“ sagði einn þeirra og annar sagði: „Mér finnst ég vera öruggari þegar ég veit það verður hringt í mig.“

Átta viðmælendur nefndu að það væri félagslegur og andlegur stuðningur að fá skjáheimsóknir. „Það er ágætt að vita að það sé fylgst með manni og þeim sé annt um mig,“ sagði einn viðmælenda meðal annars. Öðrum fannst erfitt í fyrstu að þiggja skjáheimsókn en nú þyki honum gott að fá slíka heimsókn: „Ég er búinn að einangra mig frá öllu. Það var erfitt fyrst en er núna farinn að hlakka til að fá heimsóknir á skjáinn. Gott að tala við fólk sem ég þekki ekki.“

„Bíð spennt með að sjá þær á skjánum“

Nokkrar af spurningunum í könnuninni sneru sérstaklega að einmanaleika en þeim var sérstaklega beint að svarendum sem sögðust upplifa einmanaleika í sínu lífi. Athyglisvert er að stór hluti þeirra, eða 79%, svöruðu því játandi að skjáheimsóknir dragi úr einmanaleika. Í athugasemdum við spurninguna var algengt að fólk nefndi að því þætti gott að fá heimsóknirnar, þær gleðji og þeim líði betur eftir þær. 

Himinlifandi með niðurstöðurnar

„Við erum himinlifandi að fá þessar niðurstöður. Það er alveg dásamlegt að sjá að við erum á réttri leið,“ segir Ása Kolbrún Hauksdóttir, teymisstjóri í skjáveri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Skjáheimsóknir eru aðeins ein af þeim velferðartæknilausnum sem þegar eru komnar í gagnið hjá Reykjavíkurborg. Aðrar slíkar lausnir sem byrjað er að nota eru lyfjaskammtarar og fjarvöktun hjartabilunareinkenna, þar sem niðurstöður mælinga heima fyrir eru sjálfkrafa sendar í skjáverið til yfirferðar.  

Ása Kolbrún Hauksdóttir, teymisstjóri í skjáveri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Ása Kolbrún Hauksdóttir, teymisstjóri í skjáveri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. 

Mikil áhersla er lögð á það á velferðarsviði Reykjavíkurborgar að gera þjónustukannanir með reglubundnum hætti og tekur þróun þjónustu sviðsins mið af þeim. Markmið könnunarinnar sem nú var lögð fyrir notendur var að kanna upplifun notenda af skjáheimsóknum, með áherslu á öryggi og gæði þjónustunnar og líðan notanda. Um nafnlausa símakönnun var að ræða og henni svöruðu 56 einstaklingar. Það var, þegar könnunin var framkvæmd, tæplega helmingur skráðra notenda skjáheimsókna en síðastliðið sumar voru þeir 128 talsins. 

Nokkrar setningar frá viðmælendum könnunarinnar: 

„Settist niður með kaffibollann á morgnana, mjög vinalegt.“

„Lífgar uppá daginn, eftirlitið er gott.“

„Tala við einhvern sem hefur áhuga á manni og að hugsa til manns. Það er mikilvægt. Eru að leggja sig fram við að manni líður vel.“

„Félagslegur stuðningur. Dregur mig úr þessari holu sem ég er búinn að grafa mig í.“

Niðurstöðurnar styðja við áætlanir um að fjölga notendum 

Reykjavíkurborg hóf tilraunverkefni með skjáheimsóknir í fyrstu bylgju covid-19 fyrir um fimm árum og þeim var strax vel tekið, bæði af notendum og starfsfólki. Það er íslenska nýsköpunarfyrirtækið Memaxi sem er að baki skjáheimsóknum en hlutverk þess er að tengja saman þau sem þurfa langtímaaðstoð í daglegu lífi, fjölskyldur þeirra og þjónustuveitendur. 

Í dag eru rúmlega hundrað einstaklingar sem fá skjáheimsóknir reglulega, ýmist frá heimahjúkrun eða heimastuðningi. Ása segir að könnunin styðji við áætlanir um að fjölga einstaklingum sem nýta skjáheimsóknir. „Við viljum vera hugmyndarík í leiðum til að þjónusta borgarbúa á sem bestan hátt. Það eru ýmsir möguleikar í skjáheimsóknum og fjarvöktun sem við eigum eftir að kanna betur. Í heimastuðningnum erum við að sinna félagslega þættinum. Með því að nýta skjáheimsóknir þar höfum við oft tækifæri til að gefa fólki lengri tíma í spjall og fleira, þar sem við þurfum ekki að keyra á milli staða.“ 

Samskipti gegnum skjáinn geti verið innihaldsrík og gefandi

Ása hvetur þau sem telja sig geta haft not af skjáheimsókn til að sækja um heimastuðning á vef Reykjavíkurborgar eða hringja í síma 411 1111. Þau sem þegar eru með heimaþjónustu en hafa ekki nýtt skjáinn geta fengið frekar upplýsingar hjá starfsfólki. „Við hvetjum öll til að skoða þessa leið með opnum huga. Það kemur á óvart hversu innihaldsrík og gefandi samskipti er hægt að eiga í gegnum skjá,“ segir Ása.