Skipulagslýsing fyrir Heiðmörk í skipulagsgátt til 2. júlí

Heiðmörk Reykjavíkur

Skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Heiðmerkur er aðgengileg í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Skipulagslýsing er undanfari deiliskipulags fyrir Heiðmörk í Reykjavík.

Óskað er eftir því að athugasemdir eða ábendingar berist eigi síðar en 2. júlí 2025 í gegnum skipulagsgátt Skipulagsstofnunnar, en þar er einnig hægt að skoða skipulagslýsinguna. 

Leiðarljós og markmið

Leiðarljósið með gerð deiliskipulags fyrir Heiðmörk: 

  • að tryggja öryggi og óbreytt gæði grunnvatns til langrar framtíðar og að svæðið nýtist áfram til útivistar í sátt við vatnsvernd. 

Styrkja á tengingu byggðar við Heiðmörk með áherslu á góð tengsl við almenningssamgöngukerfi og sjálfbæra ferðamáta. Skilgreina þarf upphafsstaði útivistar með greinargóðum upplýsingum um svæðið. Með þessu móti verður Heiðmörk aðgengilegri og öruggari en áður fyrir alla notendur, sérstaklega börn og eldra fólk. 

Eitt af markmiðum deiliskipulagsins er því að takmarka bílaumferð innan grannsvæðis vatnsverndar. Útfærslan hefur ekki verið ákveðin en er eitt af fjölmörgum verkefnum deiliskipulagsvinnunnar.

Áfram verður unnið með helstu hagsmunahópum sem nota Heiðmörk til útivistar og haft samráð við lögbundnar stofnanir og hagsmunaaðila.

Sérstakt áhættumat sem nú er verið að gera fyrir Heiðmörk verður haft til hliðsjónar við gerð deiliskipulagsins.