Skipulagslýsing fyrir Heiðmörk í skipulagsgátt

Skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Heiðmerkur er aðgengileg í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Um er að ræða tillögu að deiliskipulagi Heiðmerkur fyrir Reykjavíkurborg. Hægt að senda athugasemdir til 2. júlí.
Heiðmörk á áfram að vera aðgengilegt útivistarsvæði í sátt við vatnsvernd og er leiðarljósið með gerð deiliskipulags fyrir Heiðmörk:
- að tryggja öryggi og óbreytt gæði grunnvatns til langrar framtíðar og að svæðið nýtist áfram til útivistar í sátt við vatnsvernd.
Að öðru leyti eru markmið deiliskipulagsins margþætt.
Í Heiðmörk er vatnstökusvæði Reykvíkinga og fjölsótt útivistarsvæði í Reykjavík. Svæðið leikur mikilvægt hlutverk hvað varðar lýðheilsu höfuðborgarbúa, er rúmlega 3000 hektarar að stærð að Rauðhólum meðtöldum.
Reykjavíkurborg hefur á síðustu misserum unnið að mótun nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk í samvinnu við Veitur, Skógræktarfélag Reykjavíkur, Orkuveitu Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Samtal og samráð við notendur
Vinnan er á hendi Skipulagsfulltrúa Reykjavíkur sem hefur einnig átt gott samtal við notendur svæðisins og hagsmunaaðila og mun það samtal halda áfram deiliskipulagsferlið á enda.
Deiliskipulagssvæðið er um það bil 23,5 ferkílómetrar að stærð og afmarkast af Suðurlandsvegi til norðurs, ánni Bugðu, Elliðavatni og sveitarfélagamörkum Kópavogs til vesturs, gömlu Heiðmerkurgirðingunni til austurs og sveitarfélagamörkum Garðabæjar til suðurs.
Landsvæði Heiðmerkur fellur auk Reykjavíkur undir tvö önnur sveitarfélög, það er Garðabæ og Kópavog, en deiliskipulag þetta mun aðeins ná yfir Reykjavíkurhluta Heiðmerkur.
Leiðarljós og markmið
Mikilvægt er að styrkja tengingu byggðar við Heiðmörk með áherslu á góð tengsl við almenningssamgöngukerfi og sjálfbæra ferðamáta.
Eitt af markmiðum deiliskipulagsins er að dregið verði úr umferð ökutækja á grannsvæði vatnsverndar til þess að koma í veg fyrir möguleg mengunarslys. Hvernig þessi takmörkun verður útfærð er svo verkefni deiliskipulagsins. Skilgreina þarf upphafsstaði útivistar með greinargóðum upplýsingum um svæðið.
Áhættumat í vinnslu
Unnið er að sérstöku áhættumati til að meta þá þætti á svæðinu sem geta mögulega valdið mengun í vatni. Niðurstaða matsins verður svo notuð til að koma með mótvægisaðgerðir til þess að minnka líkur á mengun á svæðinu.
Skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag í skipulagsgátt gefur almenningi, félögum og stofnunum kost á að koma með athugasemdir og ábendingar til og með 2. júilí (sem er framlengdur frestur).
Samkvæmt tímalínu verður vinnslutillaga svo kynnt í október-desember og í janúar og febrúar 2026 gefst hagsmunaaðilum tækifæri til að senda athugasemdir. Deiliskipulagið gæti svo verið staðfest endanlega í mars 2026.