Skipulagsbreytingar með skilvirkni og aukna þjónustu að leiðarljósi

Ráðhús Reykjavíkur speglast í tjörninni.

Bætt þjónusta við íbúa og atvinnulíf, einfaldari og skýrari ferlar og aukið gagnsæi og hagkvæmni eru meginmarkmið nýrra skipulagsbreytinga hjá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru á fundi borgarráðs í dag. Breytingarnar fela meðal annars í sér sameiningu á embætti skipulags- og byggingarfulltrúa. 

Skipulags- og framkvæmdamál gegna mikilvægu hlutverki hjá borg sem er í örum vexti. Á fundi borgarstjórnar 4. mars síðastliðinn var samþykkt tillaga samstarfsflokkanna í borgarstjórn um skilvirkara vinnulag um viðhald og rekstur eigna borgarinnar. Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara (SBB), fjármála- og áhættustýringarsviði (FAS) og umhverfis- og skipulagssviði (USK) var falið að endurskipuleggja eignaumsýslu borgarinnar og í dag voru samþykktar fimm tillögur um skipulagsbreytingar innan þessara eininga.  

Er breytingunum meðal annars ætlað að einfalda og styrkja skipulags- og byggingaferla með styttri boðleiðum, aukinni skilvirkni, betri þjónustu og aukinni framlegð. Breytingarnar fela í sér sameiningu á embætti skipulags- og byggingarfulltrúa, tilflutning eignaskrifstofu frá FAS til USK og tilflutning verkefna frá SBB til USK. 
 
Breytingarnar byggja á verkefnamiðaðri nálgun og gert er ráð fyrir að til lengri tíma stuðli þær að talsverðu hagræði. Leiðarljósið er aukin skilvirkni og sveigjanleiki sem og bætt þjónusta, áhersla á áhættustýringu og aukið kostnaðareftirlit. 

Lesa má nánar um breytingarnar í fundargerð borgarráðs 15. maí 2025.