Reykvíkingur ársins í heimsókn hjá borgarstjóra

Mannlíf

Róbert Reynisson
Einar Þorsteinsson og Marta Wieczorek, Reykvíkingur ársins 2024, stilla sér upp á skrifstofu borgarstjóra. Marta með blómvönd og viðurkenningarskjal sitt.

Marta Wieczorek, sem útnefnd var Reykvíkingur ársins 2024, heimsótti Einar Þorsteinsson borgarstjóra í Ráðhús Reykjavíkur í dag og fékk viðurkenningu sína formlega afhenta.

Marta Wieczorek vinnur dýrmætt og óeigingjarnt starf í þágu barna borginni sem kennari við Hólabrekkuskóla en hún hefur líka unnið á leikskóla og mótað fyrstu ár barna í Breiðholtshverfi. Hún hefur jafnframt unnið ötullega að eflingu móðurmálskennslu í Pólska skólanum í Reykjavík, sem var stofnaður árið 2008, þar sem lögð er áhersla á pólskukennslu samhliða því að veita mikilvægan stuðning fyrir tvítyngda nemendur á Íslandi. Nemendur sem stunda nám í Pólska skólanum efla ekki einungis sitt eigið móðurmál heldur eru betur í stakk búnir til að tileinka sér íslensku sem er undirstaða þess að vera virkur þátttakandi í íslensku samfélagi. Skólinn er því mikilvæg brú milli íslensks og pólsks samfélags, ekki bara fyrir börnin sem þangað sækja nám heldur einnig fyrir foreldra barnanna. Marta kennir einnig á íslenskunámskeiði fyrir börn sem eru nýkomin til Reykjavíkur. Námskeiðið er á vegum Suðurmiðstöðvar og fer fram í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi.

Vel að nafnbótinni komin

Marta hefur einnig verið menningarsendiherra fyrir landið sitt í Breiðholti. Um er að ræða samfélagsverkefni mismunandi mál-, menningar- og/eða þjóðfélagshópa og Suðurmiðstöðvar. Menningarsendiherrar hafa það hlutverk að brúa bilið milli ólíkra þjóða og menningarheima í hverfinu með það að markmiði að virkja lýðræði, efla upplýsingaflæði og bæta tengslanet innan hverfisins.

Reykvíkingur ársins hefur verið útnefndur árlega frá árinu 2011. Tilgangurinn er að finna einstakling sem hefur, með háttsemi sinni eða atferli, verið til fyrirmyndar á einhvern hátt og þakka fyrir framlag viðkomandi. Marta er svo sannarlega vel að nafnbótinni komin, en borgarstjóri tilkynnti valið við opnun Elliðaánna í sumar.

Við óskum Mörtu aftur til hamingju og þökkum henni kærlega fyrir hennar frábæru störf.