Reykjavíkurborg með þrjár tilnefningar til íslensku vefverðlaunanna 2024

Mannlíf

Fólk í símanum fyrir framan Hallgrímskirkju

Kortasjá húsnæðisuppbyggingar, Mínar síður og vefur Borgarsögusafns hafa verið tilnefnd til íslensku vefverðlaunanna 2024. 

Samtök vefiðnaðarins (SVEF) standa að verðlaununum sem verða haldin föstudaginn 21. mars 2025 í Grósku. Tilnefningarnar eru fyrir stafrænt tól ársins, innri vef ársins og opinbera vef ársins.

Kortasjá húsnæðisuppbyggingar Reykjavíkurborgar – Stafænt tól ársins

Um er að ræða gagnvirka kortasjá sem auðveldar aðgengi að upplýsingum um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni. Kortasjáin sýnir staðsetningu og stöðu íbúðaverkefna eftir byggingarstigum og borgarhlutum.

Kortasjáin veitir skýra yfirsýn yfir stöðu rúmlega 26.000 íbúða sem eru í byggingu, samþykktum skipulagsáætlunum eða á þróunarsvæðum víðsvegar um borgina. Með því að auðvelda leit eftir byggingarstigum og borgarhlutum gefur kortasjáin borgarbúum og öðrum hagsmunaaðilum gagnlega innsýn í húsnæðisframtíð Reykjavíkur.

Þróun kortasjárinnar hefur farið fram í nánu samstarfi milli Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara (SBB), Þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON), Landupplýsingakerfis Reykjavíkurborgar (LUKR) og ótal annarra sérfræðinga. Verkefnið hefur verið í stöðugri þróun með það að markmiði að bæta virkni, notendaupplifun og upplýsingamiðlun.

Skoðaðu kortasjá Reykjavíkurborgar til að fá ítarlegar upplýsingar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni.

Mínar síður – Innri vefur ársins

Mínar síður eru hjartað í stafrænni þjónustu Reykjavíkurborgar og lykilverkefni í stafrænni umbreytingu borgarinnar. Markmið þeirra er að einfalda líf fólks og fyrirtækja í borginni með því að bjóða upp á betra aðgengi að opinberri þjónustu. Stórbætt rafrænt aðgengi að þjónustunni hefur dregið úr sóun, fækkað bílferðum, sparað tíma og flýtt fyrir afgreiðslu. Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur einnig notið góðs af skýrari, öruggari og skilvirkari ferlum. 

Við þróun Minna síðna var unnið út frá notendamiðaðri nálgun, reglum um algilda hönnun og reglum um stafrænt aðgengi fylgt eftir fremstu getu. Mínar síður eru í sífelldri þróun og reglulega er nýjungum bætt við sem gera þjónustuna enn betri og aðgengilegri.

Vefur Borgarsögusafns - Opinber vefur ársins

Borgarsögusafn Reykjavíkur er rekið af Reykjavíkurborg. Það er annað stærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafni Íslands. Á sýningarstöðunum sýningarstöðum safnsins geta gestir kynnt sér sögu og menningu Reykjavíkur á fjölbreyttan og lifandi hátt. Safnið sinnir mikilvægum rannsóknum á sviði minjavörslu og heldur utan um menningarminjar í Reykjavík.

Sýningarstaðir safnsins eru í Árbæjarsafni, Landnámssýningunni í Aðalstræti, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Sjóminjasafninu í Reykjavík og Viðey, auk þess sem starfsemi safnsins er sýnileg með öðrum hætti, t.d. með sögugöngum, útgáfu og menningarmerkingum í borginni.

Með nýjum vef hefur leiðarkerfið verið bætt og skýr framsetning efnis auðveldar notendum að finna upplýsingar á einfaldan og skilvirkan hátt. Myndasafn hefur verið endurbætt og sögulegar myndir og myndbönd orðin aðgengilegri. Myndböndin bjóða upp á lifandi innsýn í sögulega atburði, menningu og arfleifð.

Nánari upplýsingar um tilnefningar til vefverðlaunanna 2024