Óskað eftir ungum leiðtogum

Ungmenni á Skólavörðustíg
Ungmenni á Skólavörðustíg

Antirasistarnir og mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar leita að þátttakendum í verkefnið Ungir leiðtogar sem fer fram á haustönn 2025.

Ert þú unglingur af erlendum uppruna, fæddur 2009-2012 og stundar nám við grunn- eða framhaldsskóla í Reykjavík? Langar þig að fræðast um jafnréttismál, öðlast betri leiðtogafærni og hafa jákvæð áhrif á þitt nærsamfélag? 

Antirasistarnir ásamt mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar leita að ungmennum til að taka þátt í verkefninu Ungir leiðtogar sem hefur göngu sína um miðjan september. 

Miðla reynslu og fræðast

Ungir leiðtogar varð til haustið 2024 þegar mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hlaut styrk frá Evrópuráðinu til að auka inngildingu og þátttöku ungs fólks af erlendum uppruna í samfélagslegri umræðu. Verkefnið gengur út á að fjölbreyttur hópur ungmenna af erlendum uppruna hittast vikulega ásamt leiðbeinendum frá mannréttindaskrifstofu til að ræða um jafnrétti og fjölmenningu. Að auki fá ungmennin verkfæri til að auka sjálfstraust, samskipti og leiðtogahæfni.  Áður en verkefninu lauk í fyrra hitti hópurinn kjörna fulltrúa úr mannréttinda- og lýðræðisráði og fjölmenningarráði þar sem farið var yfir íslenskukennslu í skólum, frístundastarf fyrir öll og annað sem skiptir ungmenni máli. 

Í ár er verkefnið styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála og það eru stelpurnar í Antirasistunum sem koma til með að leiða verkefnið, enda þekkja þær af eigin raun hvað það er að vera ungmenni af erlendum uppruna í Reykjavík. Antirasistarnir hafa hlotið Frumkvöðlaverðlaun samtakanna Nordic Safe Cities eða Öruggar borgir á norðurlöndunum fyrir hlutverk sitt í baráttunni gegn kynþáttafordómum og mismunun á Íslandi.

Auglýsing Ungir leiðtogar óskast.
Ungir leiðtogar óskast.

Raddir ungmenna mikilvægar

Hópurinn kemur til með hittast vikulega þangað til að verkefninu líkur í byrjun desember. Á fundum hópsins er fræðsla um fordóma, hatursorðræðu, lýðræði, íbúaþátttöku og margt fleira. Auk þess verður farið í tveggja daga námsferð út fyrir borgina þar sem tekið verður þátt í vinnustofu um lýðræði. 

Hljómar þetta spennandi? Sendu okkur tölvupóst á ungirleidtogar@reykjavik.is fyrir lok mánudagsins 8. september með nafni og kennitölu og auk þess að svara þessum tveimur spurningum:

  1. Hvers vegna skipta raddir ungmenna af erlendum uppruna máli?  
  2. Ef að þú gætir breytt einhverju fyrir ungmenni af erlendum uppruna í Reykjavík, hverju myndir þú breyta?

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á að framlag hvers og eins skuli metið að verðleikum. Verkefnið Ungir leiðtogar er hluti af því markmiði Reykjavíkurborgar að stuðla markvisst að aukinni þátttöku fólks af erlendum uppruna í málefnum borgarinnar og í stjórnum, ráðum og nefndum.