Nýsköpunarvika í Reykjavík
Nýsköpunarvikan hófst í Reykjavík í dag og stendur út þessa viku með fjölda nýsköpunartengdra viðburða og fyrirlestra. Iceland Innovation week er alþjóðlegur viðburður í Reykjavík og eru margir erlendir gestir í Reykjavík þessa dagana vegna hennar.
Reykjavíkurborg er einn af bakhjörlum Nýsköpunarvikunnar. Starfsmenn sækja viðburði og borgin tekur virkan þá í nokkrum þeirra.
Afrakstri nýsköpunar fagnað
Reykjavíkurborg hefur bætt þjónustu við íbúa með nýsköpun og í vikunni verða sett á samfélagsmiðla nokkur myndbönd til að varpa ljósi á þau verkefni. Einnig verður hægt að sjá afrakstur þessarar vinnu á vefsíðunni reykjavik.is/nyskopunarvikan.
Fyrsta vídeóið var birt fyrr í dag en þar er sagt frá Fríbúð sem opnuð var í Gerðubergi, þar sem íbúar geta gefið og sótt notaða muni og fengið verkfæri að láni úr sjálfsafgreiðsluskápum.
Kolaportið verður nýsköpunarmiðja
Dagskrá nýsköpunarvikunnar má sjá í heild á Icelandinnovationweek.is. Viðburðir eru víða og í ár færist hlut dagskrár í Kolaportið en þar verða kynningarbásar fyrir gesti að kynna sér nýjustu strauma í nýsköpunargeiranum. Reykjavík tekur þátt þar í samstarfi við Íslandsstofu með bás fyrir Reykjavík Science City.
Stafrænt ráð verður með vettvangsfund í Kolaportinu miðvikudaginn 14. maí kl. 13:30. Á fundinum munu ráðsmenn eiga opið samtal við fulltrúa úr atvinnulífinu um nýsköpun í Reykjavíkurborg. Inga Rós mun halda kynningu um gagnamál borgarinnar, þar sem hún fjallar meðal annars um notkun sorpskynjara. Þá mun Gunnar Dofri frá Sorpu kynna hvernig þessi tækni nýtist í starfsemi þeirra og sýna dæmi úr praxís. Fundurinn fer fram á bás Reykjavík Science City og er hugsaður sem vettvangur fyrir samtal, tengslamyndun og kynningu á verkefnum borgarinnar og RSC. Þar gefst gestum tækifæri til að kynna sér nýjungar og ræða við þá sem að þeim standa.
Þá tekur borgin þátt í viðburði vegna útgáfu Reykjavík Startup Guide og tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir þátt í pallborði sem fulltrúi Reykjavíkurborgar. Startup Guiede Reykjavík fundurinn er kl. 15:30–16:30 á miðvikudag.
Nordic GovTech Alliance tengir saman hið opinbera og nýsköpunarheiminn
Í tilefni af Nýsköpunarviku 2025 verður haldinn sérstakur viðburður á vegum Nordic GovTech Alliance þar sem lögð verður áhersla á að efla samstarf milli opinberra aðila og frumkvöðla. Markmiðið er að byggja brýr á milli þeirra þarfa og áskorana sem hið opinbera stendur frammi fyrir og þeirra lausna sem nýsköpunargeirinn hefur upp á að bjóða. Viðburðurinn er vettvangur til að miðla reynslu, kynna lausnir og skapa tækifæri til samvinnu sem getur skilað betri og skilvirkari þjónustu fyrir almenning.
Reykjavíkurborg tekur þátt. Skráningu á viðburðinn var lokað fyrir nokkru síðan.
Nánari upplýsingar:
- Icelandinnovationweek.is
- Nýsköpunarvikan – þátttaka Reykjavíkur reykjavik.is/nyskopunarvikan
- Nýsköpun í Reykjavík