Ný grenndarstöð opnuð við Hofsvallagötu
Búið er að taka í notkun djúpgáma á nýjum stað grenndarstöðvarinnar í Vesturbæ við Hofsvallagötu. Gámar á yfirborði fyrir textíl og skilagjaldsskyldar umbúðir verða færðir á næstu dögum. Gámar fyrir flugeldarusl verða settir upp fyrir áramót tímabundið á gamla staðnum við Vesturbæjarlaug.
Djúpgámarnir eru fyrir plast, pappír, gler og málma. Markmiðið með endurgerðinni er að bæta umhverfið og aðgengi íbúa að flokkun.
Aukið við þjónustuna
Sorpa bs. sér um rekstur og umhirðu við stöðuna fyrir Reykjavíkurborg. Í ár hefur verið aukið við þjónustuna í samstarfi við Sorpu og stöðvarnar hreinsaðar alla daga vikunnar. Merkjanlegur árangur er af þessari auknu þjónustu og kvörtunum íbúa fækkað. Hinsvegar þarf að halda áfram að hvetja til betri umgengni við margar stöðvar og verður áfram unnið að þeim verkefnum.
Til hamingju með nýju stöðina og takk fyrir að flokka!