Grenndarstöð við Hofsvallagötu í djúpgáma

Sambærileg grenndarstöð við Klambratún sem hefur verið endurgerð með djúpgámum.
Djúpgámar við götu

Áætlað er að framkvæmdir hefjist á morgun við endurgerð grenndarstöðvarinnar við Hofsvallagötu (Vesturbæjarlaug) en flestir gámar á yfirborði verða fjarlægðir og þeir leystir af hólmi með djúpgámum. Áfram verða gámar fyrir textíl og skilagjaldsskyldar umbúðir á yfirborði.

Umhverfi og aðgengi bætt

Markmiðið með endurgerðinni er að bæta umhverfið og aðgengi íbúa að flokkun en með því að vera með djúpgáma er hægt að fækka hindrunum í aðgengi að flokkun. Grenndarstöðin er vinsæl hjá íbúum og mikið notuð. Þrengsli hafa verið á núverandi stað við inngang Vesturbæjarlaugar, bæði fyrir notendur og þjónustuaðila auk þess sem úrbóta við losun gámana er þörf. Grenndarstöðin verður nú færð við Hofsvallagötu, og eykst öryggi við tæmingu gámana, þar sem hirðubílar þurfa ekki að bakka og eru fjær leikskóla.

Yfirborð stöðvarinnar verður endurgert og hellulagt umhverfis gámana. Grenndarstöðvar í djúpgámum falla vel að grónum byggðum og eru aðgengilegri en hefðbundnar grenndarstöðvar á yfirborði. Reynsla af þeim fjórum stöðvum sem færðar hafa verið í djúpgáma er að þar hefur umgengni batnað og minna um að rusl sé skilið eftir við gámana.

Aukið við þjónustuna

Á stöðinni verður áfram hægt að skila flokkuðu plasti, pappír, gleri og málmum. Þá er gert ráð fyrir söfnunarskápum fyrir textíl og skilagjaldsskyldar umbúðir á yfirborði.

Sorpa bs. sér um rekstur og umhirðu við stöðuna fyrir Reykjavíkurborg. Í ár hefur verið aukið við þjónustuna í samstarfi við Sorpu og stöðvarnar hreinsaðar alla daga vikunnar. Merkjanlegur árangur er af þessari auknu þjónustu og kvörtunum íbúa fækkað. Hinsvegar þarf að halda áfram að hvetja til betri umgengni við margar stöðvar og verður áfram unnið að þeim verkefnum.

Grenndarstöðin verður áfram opin á núverandi stað á meðan framkvæmdatíma stendur og ekki er gert ráð fyrir hindrunum á aðgengi íbúa.

Við hlökkum til að opna nýja og betri grenndarstöð!