Menningarnótt 2025 - undirbúningur í fullum gangi
Menningarnótt nálgast óðum og undirbúningur er í fullum gangi. Viðbragðsaðilar hittust á fundi í síðustu viku og fóru yfir ýmis atriði sem tengjast þessari stærstu hátíð landsins.
Meðal þeirra sem sátu fundinn er lögreglan, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Strætó, Landspítalinn, Reykjavíkurmaraþon, Hopp, ásamt fulltrúum frá ferðaþjónustunni, félagsmiðstöðvum ásamt forvarnarfulltrúum. Þá voru einnig starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sjá um skipulag hátíðarinnar og lokun gatna.
Viðtækar götulokanir verða í ár líkt og fyrri ár og var farið yfir hvenær þær taka gildi og aðgengi að miðborginni þar sem hátíðahöldin fara fram.
Lögreglan fór yfir öryggismálin og hvernig þeim verður háttað á meðan á hátíðinni stendur. Fulltrúi strætó fór yfir hvernig þjónustu verður háttað fyrir farþega sem vilja komast á hátíðarsvæðið.
Með samstilltu átaki allra aðila og upplýsingum um framkvæmd hátíðarinnar er miðað að því að hátíðin fari sem best fram.
Verum klár á Menningarnótt
Það er ekki aðeins framkvæmd og skipulag Menningarnætur sem er mikilvægt heldur snýst þetta líka um að allt samfélagið fari fram með góðu fordæmi á þessari stærstu fjölskylduhátíð Reykjavíkurborgar.
Reykjavíkurborg stendur í sumar fyrir átaki undir formerkjunum Verum klár þar sem áhersla er lögð á jákvæð skilaboð til ungs fólks og aðstandenda þeirra um samveru og heilbrigðan lífsstíl.
Átakið Verum klár snýst um að sýna hvort öðru virðingu, samkennd og stuðning. Með auknu samstarfi við foreldra og eflingu forvarnarfræðslu til ungmenna má sporna gegn neikvæðri þróun hvað varðar áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi meðal barna.
Verum klár er ákall til samfélagsins í heild að fara fram með góðu fordæmi og að huga að jákvæðum samverustundum og góðum samskiptum.
Það er mikilvægt að ungt fólk sé meðvitað um að þau hafi áhrif á samfélagið með hegðun sinni og gjörðum. Ungt fólk er frábært en það er mikilvægt að minna á að hluti af því að fullorðnast er að hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum okkur, koma vel fram og vera góður við aðra.
Foreldraábyrgðin fer aldrei í frí, verum klár, setjum mörk og verum til staðar á Menningarnótt.
Verum klár, njótum samveru með fjölskyldu og vinum á Menningarnótt og verðum samferða heim að loknum hátíðarhöldum.
Nánari upplýsingar um dagskrá má nálgast á menningarnott.is
Hlökkum til að sjá ykkur.