Leikskólaleiðinni í Reykjavík vísað í samráðsferli

Leikskólabörn í röð og kennari tekur á móti þeim

Borgarráð hefur samþykkt að setja tillögur að umbótum á náms- og starfsumhverfi leikskóla í samráðsferli. Þetta var ákveðið í framhaldi af áfangaskilum stýrihóps um leikskólaleiðina í Reykjavík. Tillögur hópsins í þessum fyrstu skilum snúa að dvalartíma barna, breyttu skipulagi og nýrri gjaldskrá. 

Breytingunum sem felast í tillögunum er ætlað að bæta starfsumhverfi, efla fagstarf og auka fyrirsjáanleika í starfsemi leikskóla. Mikilvægur þáttur til að ná þessu fram er að meira samræmi verði á dvalartíma barna og vinnutíma starfsfólks. Vonir standa til að bættar starfsaðstæður ásamt nýjum kjarasamningum muni bæta mönnun, auka hlutfall fagmenntaðra í leikskólunum og komi að mestu í veg fyrir ófyrirséðar lokanir vegna fáliðunar sem hafa reynst barnafjölskyldum þungar. 

Markmið að vinnutími starfsfólks og dvalartími barna mætist í 38 tímum 

Leitast er við að vinnutími starfsfólks og dvalartími mætist að miklu leyti í 38 tíma viku. Vinnuskylda starfsfólks er 36 tímar á viku samkvæmt kjarasamningum og mun vinnutíminn jafnast út ef vinnuskylda verður 38 tímar á viku en á móti koma heilir frídagar í kringum jól og áramót, í Dymbilviku og í vetrarfríum. Í tillögunum er lagt til að fjölskyldur ákveði í september ár hvert hvaða skráningardaga þau ætli að nýta sér á skólaárinu. 

Skráningardagar: 

  • Allir virkir dagar á milli jóla og nýárs​ 
  • Daga sem er haust- og vetrarfrí í grunnskólum​ 
  • Dymbilvika, í aðdraganda páska 

Verð fyrir hvern skráningardag verður 4000 krónur og ef enginn skráningardagur á skólaárinu er nýttur fellur námsgjald að fullu niður í maí. 

Ný gjaldskrá tekur mið af tekjum 

Stýrihópurinn leggur til nýja gjaldskrá sem felur í sér hvata til að hafa dvalartíma barna í hverri viku 38 tíma eða skemur. Þá er lagt til að það verði ein gjaldskrá í stað tveggja áður. Hærra gjald verður fyrir langa vistun en tekið verður tillit til aðstæðna foreldra með tekjuviðmiðum. Í nýrri gjaldskrá er gert ráð fyrir 25 prósenta afslætti af námsgjaldi ef börn eru ekki skráð eftir klukkan 14:00 á föstudögum en gjald sem greitt er fyrir leikskóla skiptist í námsgjald og fæðisgjald. Gjald fyrir hvern hálftíma umfram 38 tíma á viku er 4000 krónur. 

Í tillögunum er leitast við að skipuleggja leikskólastarf með þeim hætti að nám og mesta fagstarfið fari fram í 5 – 6 tíma á dag og að leikskólar verði fullmannaðir á milli klukkan 8:00 og 16:00 mánudaga til fimmtudaga og milli 08:00 og 14:00 á föstudögum. 

Tafla með útreikningum á nýjum leikskólagjöldum

Víðtækt samráð framundan 

Eins og áður segir er um að ræða tillögur að nýrri nálgun í starfsemi leikskóla sem voru kynntar í borgarráði í dag og samþykkt að senda í frekari vinnslu og samráð. Hugmyndirnar voru kynntar leikskólastjórum um miðjan september, og á morgun verða þær sendar foreldraráðum leikskóla, leikskólastjórum og stéttarfélögum starfsfólks.  

Þann 15. október verður opnuð samráðsgátt þar sem foreldrar, starfsfólk, stjórnendur og aðrir velunnarar leikskólamála geta sent inn umsögn. Samráðsgáttin verður opin í tvær vikur eða til 29. október. Þegar samráðsgáttin opnar verður síða aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar þar sem verða spurningar og svör við tillögunum auk reiknivélar þar sem hver og einn getur sett inn sínar upplýsingar til að skoða hvaða áhrif breytingarnar gætu haft.