Borgarráð - Fundur nr. 5796

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 2. október var haldinn 5796. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08:20. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnafulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson, Heimir Snær Guðmundsson, Róbert Marshall og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. september á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar, svæðis 3, ásamt fylgiskjölum.

    -     Kl. 08:21 tekur borgarstjóri sæti á fundinum með rafrænum hætti.
    -     Kl. 08:23 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.
    -     Kl 08:24 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25070021

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. september á tillögu um landnotkunarheimildir við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    -     Kl. 8:27 tekur borgarstjóri sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100121

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. september 2025, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja útboðsferli til kaupa á tveimur sorphirðubílum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25090387

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar bendir á að fullt tilefni er til að bjóða út sorphirðu í einum borgarhluta og kanna hvaða kjör borginni bjóðast. Vísbendingar eru um að nágrannasveitarfélögin séu að fá góð kjör á sorphirðu með tilkomu aukinnar samkeppni á markaðnum. Nú þegar hefur borgin endurnýjað meginþorra sorpbíla borgarinnar. Réttara væri að fresta kaupunum á þessum sorphirðubílum og bjóða strax út sorphirðu í einu hverfi og sjá hvort ekki væri af því hagræði í rekstri borgarinnar. Þeir aðilar sem yrðu hlutskarpastir í útboðinu myndu þá leggja til sorphirðubíla.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka þá afstöðu sína að sorphirða Reykjavíkurborgar skuli boðin út.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja innkaupaferli verkfræðihönnunar á viðbyggingu og endurbótum á Sæborg, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun er 49 m.kr.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Hróðnýju Njarðardóttur sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK22100076

    Fylgigögn

  5. Lagt fram uppfært bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. september 2025, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. september 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um lóðastækkun og uppbyggingu á lóðinni Álfabakka 8, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25030023

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ekki liggur fyrir í málinu hvað fyrirhuguð uppbygging mun fela í sér og hvaða áhrif hún mun hafa á ásýnd og starfsemi í Mjódd. Undirstrika fulltrúarnir mikilvægi þess að hugað sé að heildarskipulagi Mjóddar sem þungamiðju þjónustu- og verslunar í Breiðholti og að vandað sé til verka við alla uppbyggingu. Þess verði gætt að uppbyggingin skerði ekki lífsgæði, birtuskilyrði og útsýni íbúa í hverfinu. Vegna þeirra takmörkuðu upplýsinga sem liggja fyrir um fyrirhugaða uppbyggingu sitja fulltrúarnir hjá við afgreiðslu málsins.
     

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. september 2025, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Genfar á UN Forum of Mayors, ásamt fylgiskjölum. MSS25090125

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 30. september 2025, að breytingum á fjárfestingaráætlun A-hluta Reykjavíkurborgar.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. FAS25010013

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. september 2025, varðandi áfangaskil og tillögur stýrihóps um leikskólaleiðina í Reykjavíkurborg – bættar náms- og starfsaðstæður í leikskólum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.

    -     Kl. 9:40 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundi.

    Vísað til skóla- og frístundaráðs.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Steinn Jóhannsson, Ólafur Brynjar Bjarkason og Frans Páll Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt borgarfulltrúunum Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, Sabine Leskopf og Mörtu Guðjónsdóttur. MSS25050076

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð samþykkir að senda í víðtækt samráð fyrstu tillögur stýrihóps um bættar náms- og starfsaðstæður í leikskólum. Skóla- og frístundasviði er falið að halda utan um samráðið og er mikilvægt að kalla fram öll sjónarmið; sjónarmið foreldra leikskólabarna, starfsfólks í leikskólum, forsvarsfólks stéttarfélaga, fræðasamfélagsins og allra þeirra sem láta sig málefni leikskólans varða. Tillögurnar fela í sér breytingar sem eiga að auka stöðugleika og öryggi í starfi með börnum, skapa fyrirsjáanleika og draga úr fáliðun. Þá eru gerðar breytingar á gjaldskrá sem vernda viðkvæma og tekjulitla hópa sem sannarlega þurfa langan vistunartíma fyrir börnin sín og þann sveigjanleika sem leikskólar munu áfram bjóða upp á. Þær breytingar sem að lokum verða samþykktar fara í jafnréttismat og áfram þarf að hafa í forgrunni áhrif þeirra á konur, einstæða foreldra, foreldra af erlendum uppruna og aðra viðkvæma hópa sem reiða sig á grunnþjónustu Reykjavíkurborgar enda er hún til þess fallin að auka jöfnuð og draga úr aðstöðumun ef rétt er að henni staðið.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að ráðist verði í umbætur á náms- og starfsumhverfi leikskóla. Fulltrúarnir lýsa hins vegar efasemdum um margar af þeim breytingum sem kynntar eru í tillögum stýrihópsins. Er þess saknað að í tillögunum birtist skýrar áætlanir um endurskipulag leikskólastarfsins með þeim hætti að faglegt starf fari fram hluta úr degi en aðrir hlutar dags líkist meira frístund í grunnskólum. Slík endurskipulagning gæti haft jákvæð áhrif á faglegt starf og starfsumhverfi barna og starfsmanna. Fyrirliggjandi tillögur munu leiða til þess að leikskólagjöld fyrir fulla 42,5 tíma leikskóladvöl á viku verða þau dýrustu á höfuðborgarsvæðinu fyrir þann hóp foreldra sem ekki nýtur niðurgreiðslna. Þá eru enn óljós þau áhrif sem gjaldskrárbreytingin mun hafa á gjaldskrár sjálfstætt starfandi leikskóla. Fulltrúarnir gjalda jafnframt varhug við afsláttarkjörum til þeirra sem geta stytt leikskólavist barna sinna á föstudögum, enda má leiða líkum að því að slík kjör nýtist helst foreldrum sem njóta styttingar vinnuviku og starfa á opinberum markaði. Þá leggjast fulltrúarnir gegn þeim þrönga ramma sem sniðinn er um sérstaka skráningardaga en foreldrar geta illa áttað sig á fyrirkomulagi vinnu og verkefna með svo löngum fyrirvara. Tillögurnar fara nú í samráðsferli og hvetja fulltrúarnir hagaðila til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þær tillögur sem hér eru lagðar fram byggja á vinnu sem hófst í tíð síðasta meirihluta þegar skipaður var starfshópur embættismanna til að skoða leikskólakerfið heildstætt út frá gildum Reykjavíkurborgar um þjónustu við börn og fjölskyldur og gæði leikskólastarfs. Starfshópurinn var settur á stofn undir forystu Framsóknar þann 7. október 2024 í framhaldi af fundum meðal leikskólastjóra og starfsmanna. Starfshópurinn greindi m.a. leiðir til endurbóta á leikskólastarfi og vann að heildstæðri endurskoðun með það að leiðarljósi að bæta starfsumhverfi í leikskólastarfi. Borgarfulltrúi Framsóknar telur að í þessum tillögum sem útfærðar voru af hálfu stýrihóps undir forystu nýs meirihluta sé ýmislegt sem muni bæta starfsaðstæður kennara en hefur áhyggjur af því hvaða áhrif þær hafa á þjónustu við foreldra. Auka mætti sveigjanleika fyrir foreldra hvað tímafjölda varðar, sérstaklega þá sem þurfa að keyra milli borgarhluta til að sækja og skutla börnum í leikskólann. Framsókn styður að tillögurnar fari í ítarlegt samráðsferli við foreldra og mun taka endanlega afstöðu til tillagnanna að samráðsferli loknu.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Veruleg vonbrigði eru að sjá hve áhrifalitlar tillögur koma frá stýrihópnum. Engin snerting er á skapandi lausnum til mótunar bætts náms- og starfsumhverfis. Takmörkun á tíma á föstudögum er skerðing á grunnþjónustu sem sniðin er að þjónustu við opinbera starfsmenn sem hafa tekið styttingu vinnuvikunnar í formi frídaga á föstudegi en er fráleitt fyrir þá sem starfa á almennum markaði. Ber einnig að horfa til áhrifa breytinganna á sjálfstætt starfandi skóla.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. september 2025, varðandi fundadagatal borgarráðs janúar til júní 2026, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt. MSS22060038

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. september 2025. MSS25010008

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 19. september 2025. MSS25010025

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. október 2025.
    6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS25010030

    Fylgigögn

  13. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sex mál (MSS22030266, MSS25010023, MSS25010021, MSS24100168, MSS24110113, MSS25020136). MSS25090126

    Fylgigögn

  14. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25090127

    Fylgigögn

  15. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að starfsdagar leikskóla verði skipulagðir til samræmis við starfsdaga grunnskóla innan sérhvers borgarhverfis. Þannig megi fækka þeim starfsdögum sem fjölskyldur þurfa að mæta sem eiga börn á ólíkum skólastigum.

    Frestað. MSS25100008

    -    Kl. 09:52 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundi.
    -    Kl. 09:56 víkur Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir af fundi. 

Fundi slitið kl. 10:12

Líf Magneudóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Einar Þorsteinsson Helga Þórðardóttir

Hildur Björnsdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 02.10.2025 - prentvæn útgáfa